Enski boltinn

Ákvörðun Everton kom Rooney í opna skjöldu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nýr kafli að hefjast hjá Wayne Rooney
Nýr kafli að hefjast hjá Wayne Rooney vísir/getty
Enska knattspyrnugoðsögnin Wayne Rooney leikur sinn fyrsta leik fyrir DC United á morgun þegar liðið mætir Vancouver Whitecaps í bandarísku úrvalsdeildinni en Rooney gekk nýverið í raðir DC United eftir afar farsælan feril í enska boltanum.

Frumraun Rooney er beðið með mikilli eftirvæntingu vestanhafs og var hann í ítarlegu viðtali hjá ESPN í gær þar sem hann ræddi meðal annars endalok ferils síns hjá Manchester United en Rooney er markahæsti leikmaður í sögu enska stórveldisins auk þess að vera markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi.

„Það var orðið augljóst undir lokin hjá Man Utd að ég ætti ekki von á miklum spilatíma og ég vil alltaf spila sem mest. Ég átti tvö ár eftir af samningi og ég hefði getað setið hann út og hirt launin mín en ég vildi spila og fór því aftur til Everton,“ segir Rooney.

Rooney ólst upp hjá Everton og var því að snúa heim þegar hann gekk í raðir félagsins síðasta sumar. Everton byrjaði tímabilið illa en lauk keppni í 8.sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Marco Silva tók við stjórnartaumunum hjá félaginu skömmu eftir að leiktíðinni lauk og gerði Rooney það snemma ljóst að krafta hans væri ekki óskað lengur.

„Það er ekkert leyndarmál og ég hef sagt það áður að Everton gerðu mér það ljóst að þeir vildu losna við mig.“

„Af einhverjum ástæðum vildu þeir losna við mig. Ég veit enn ekki afhverju. Mér fannst þetta ganga ágætlega. Ég var markahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að spila mestmegnis á miðjunni. Svona er fótboltinn og ég þurfti að taka ákvörðun.

„Ég sagði við Everton: Ég er ekki krakki. Segið mér hvort þið viljið halda mér eða hvort þið viljið að ég fari. Við ræddum málin og á endanum varð niðurstaðan að semja við DC United og ég er mjög sáttur við þá ákvörðun,“ segir Rooney.


Tengdar fréttir

Rooney: Lífstíllinn hentaði mér

Wayne Rooney, nýjasti leikmaður DC United í Bandaríkjunum, segir að lífstíllinn í Bandaríkjunum hafi spilað stórt hlutverk í ákvörðun hans að færa sig um set.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×