Erlent

Rafrettureykjandi aðstoðarflugmaður ástæða 6.500 metra dýfu farþegaþotu

Birgir Olgeirsson skrifar
Þetta er niðurstaða rannsóknar á þessu atviki en rannsakendur segja aðstoðarflugmanninn hafa reynt að leyna því að hann hefði verið að reykja rafsígarettu.
Þetta er niðurstaða rannsóknar á þessu atviki en rannsakendur segja aðstoðarflugmanninn hafa reynt að leyna því að hann hefði verið að reykja rafsígarettu. Vísir/Getty
Rannsakendur segja rafrettureykjandi aðstoðarflugmann ástæðu þess að farþegaþota Air China tók 6.500 metra dýfu á leiðinni frá Hong Kong til kínversku borgarinnar Dalian síðastliðinn þriðjudag.

Þetta er niðurstaða rannsóknar á þessu atviki en rannsakendur segja aðstoðarflugmanninn hafa reynt að leyna því að hann hefði verið að reykja rafsígarettu. Ætlaði hann sér að slökkva á viftu í flugstjórnarklefanum til að varna því að reykur myndi berast til farþega. Þess í stað slökkti hann óvart á loftræstikerfinu sem varð til þess að loftþrýstingur féll um borð í vélinni.

Áhöfnin þurfti að sleppa súrefnisgrímum til farþega og lækka flughæð vélarinnar afar hratt um 6.500 metra en hækkuðu flugið aftur nokkru síðar.

Rannsakendur segja aðstoðarflugmanninn ekki hafa sagt flugstjóranum frá því að hann ætlaði að slökkva á viftunni. Áhöfnin vissi því ekki hvað olli því að loftþrýstingurinn féll í vélinni en ef það gerist þarf flugmaðurinn að lækka flug vélarinnar til að tryggja öryggi áhafnar og farþega.

Þegar áhöfninni varð ljóst að slökkt hafði verið á loftræstikerfinu var kveikt á því aftur og vélinni snúið aftur í sömu flughæð.

Venjuleg flughæð hjá farþegaflugvélum er yfirleitt á milli 10.000 og 13.000 metrar, svo hægt er að áætla nokkuð örugglega að flugvélin hafi misst helming flughæðar sinnar í fallinu.

Kínverska flugfélagið hefur boðað að það muni ekki veita áhöfninni neinn afslátt þegar kemur að meðhöndlun þessa máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×