Viðskipti innlent

Stærsti hluthafinn seldi allt sitt í Eimskip

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hlutur Yucaipa Companies var metinn á 14 milljarða í nóvember á síðasta ári. Félagið fékk 11 milljarða fyrir hlutinn.
Hlutur Yucaipa Companies var metinn á 14 milljarða í nóvember á síðasta ári. Félagið fékk 11 milljarða fyrir hlutinn.
Bandaríska fjárfestingafélagið Yucaipa Companies seldi í gærkvöldi fjórðungshlut í Eimskip fyrir um 11 milljarða króna. Þetta kom fram í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands seint í gærkvöldi en ekki er vitað á þessari stundu hver er kaupandi bréfanna. Eignarhlutur Yucaipa taldi alls um 50,6 hluta og var hann seldur á 220 krónur á hlut.

Félagið var stærsti hluthafinn í Eimskip en það hafði eignast um 32 prósenta hlut í skipafélaginu árið 2009. Þremur árum síðar seldi það svo Lífeyrissjóði verslunarmanna sjö prósenta hlut.

Yucaipa tilkynnti undir lok síðasta árs að það hefði í hyggju að selja hlut sinn í Eimskip, þá annað hvort með beinum viðskiptum eða í útboði. „Allar ákvarðanir Yucaipa um sölu verða háðar aðstæðum á fjármálamörkuðum og í efnahagsumhverfinu almennt,“ sagði í tilkynningu félagsins á sínum tíma. 

Gengi hlutabréfa í Eimskip er nú 201 króna en var rúmlega 270 krónur þegar Yucaipa greindi fyrst frá áhuga sínum á að selja fjórðungshlutinn. Hann var þá metinn á fjórtán milljarða króna.


Tengdar fréttir

Gengi hlutabréfa Eimskips aldrei lægra

Hlutabréfaverð Eimskips hefur ekki verið lægra frá því að félagið var skráð í Kauphöll Íslands í nóvember 2012. Greinandi segir ekki ekki nema von að fjárfestar séu skelkaðir. Skipafélagið gæti átt yfir höfði sér sekt upp á hundruð milljóna króna verði það fundið brotlegt.

Selja 7% hlut hvor

Stjórnendur Eimskips staðfestu í kvöld frétt Stöðvar 2 og Vísis að stærstu hluthafar félagsins, gamli Landsbankinn og Yucaipa, hyggjast selja 14% hlut í félaginu. Kaupverðið er 5,7 milljarðar króna. Hvor aðili um sig selur 14 milljónir bréfa en kaupandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×