Erlent

Trump býður Pútín til Washington í haust

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Vladimir Putin í Helsinki.
Donald Trump og Vladimir Putin í Helsinki. Vísir/AP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skipað John Bolton, þjóðaröryggisráðjafa sínum, að bjóða Vladimir Pútín, forseta Rússlands, til Washington í haust. Forsetarnir ræddu áframhaldandi viðræður á fundi þeirra í Helsinki í byrjun vikunnar og er heimboðið liður í því. Sarah Sanders, talskona Trump, tilkynnti þetta á Twitter nú í kvöld, þrátt fyrir að Trump hafi verið harðlega gagnrýndur fyrir fund þeirra í Helsinki.

Fyrr í dag skrifaði Trump á Twitter að fundur þeirra í Helsinki hefði heppnast einstaklega vel og hann hlakkaði til þess að hitta Pútín á nýjan leik. Þá gætu þeir haldið áfram viðræðum sínum og nefndi hann dæmi um að þeir hefðu meðal annars rætt málefni Ísrael, hryðjuverk, fækkun kjarnorkuvopna, tölvuárásir, milliríkjaviðskipti, Úkraínu, frið í Mið-Austurlöndum og Norður-Kóreu.

Samþykki Pútín boðið yrði það í fyrsta sinn sem hann færi til Bandaríkjanna í mörg ár. Hann heimsótti síðast Hvíta húsið í byrjun síðasta áratugar þegar George W. Bush var forseti.

Dan Coats, yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna, komst að því að Pútín væri boðið til Washington þar sem hann var staddur á sviði á öryggisráðstefnu í Aspen. Hans fyrstu viðbrögð voru: „Segðu þetta aftur“.

Því næst sagði hann: „Okei....Það verður sérstakt.“

Coats hafði áður verið að ræða afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 og áframhaldandi tölvuárásir þeirra á Bandaríkin. Hann sagði meðal annars að ekkert annað ríki kæmi nærri því að beita jafn mörgum árásum gegn Bandaríkjunum og Rússland.

Hann sagði sömuleiðis að hann vissi ekki hvað Trump og Pútín hefðu rætt sín á milli í Helsinki þar sem enginn var með þeim í herberginu nema tveir túlkar. Þá bætti hann við að hann hefði ráðlagt Trump að funda ekki einn með Pútín en það væri ekki starf hans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.