Viðskipti innlent

Síminn segir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar vonbrigði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Orri Hauksson er forstjóri Símans. Fréttablaðið/Vilhelm
Síminn telur ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að fyrirtækið hafi gerst brotlegt við fjölmiðlalög vonbrigði, skaðlega fyrir samkeppni á markaði og að hún vinni gegn nýsköpun í íslenskri sjónvarpsframleiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum en greint var frá ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar í dag. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið fjölmiðlalög með því að beina viðskiptum Sjónvarps Símans að dótturfélagi sínu Mílu. Stofnunin sektaði Símann um níu milljónir króna vegna brotsins.

Í tilkynningu Símans segir að í málinu sé deilt um skilgreiningu á grundvallaratriði í fjölmiðlalögum og „það markmið Alþingis að hvetja til nýbreytni í íslenskri sjónvarpsþjónustu.“

„Markaðsráðandi efnisdreifingarfyrirtæki á Íslandi (Vodafone) og opinbert innviðafyrirtæki (Gagnaveita Reykjavíkur innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur) hafa með málinu reynt að fá að taka upp og miðla í hagnaðarskyni en án áhættu sjónvarpsefni sem Síminn hefur fjárfest í og framleitt.

Hafa félögin einatt átt stuðning PFS vísan í þeirri viðleitni sinni, sem aftur hamlar gerð innlends sjónvarpsefnis. Síminn hefur árum saman óskað eftir sams konar opna aðgangi að hinum opinberum innviðum Gagnaveitu Reykjavíkur og önnur sveitarfélaganet á landinu veita, til að sinna öllum íslenskum neytendum óháð undirliggjandi fjarskiptanetum. Þeim óskum hefur ávallt verið hafnað af hálfu hinna opinberu aðila, Gagnaveitu Reykjavíkur og Póst- og fjarskiptastofnunar,“ segir einnig í tilkynningu Símans þar sem jafnframt er minnst á þá samkeppni sem fyrirtækið á í á markaði fyrir ólínulegt efni við veitur á borð við Apple, Netflix og Google.

„Væri nær að íslensk stjórnvöld leyfðu íslenskum fyrirtækjum að gera það sem þau geta til að taka þátt í þeirri samkeppni í stað þess að sníða íslenskum fyrirtækjum þrengri stakk í alþjóðlegri samkeppni.“

Vísir er í eigu Sýnar hf. sem einnig á Vodafone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×