Erlent

Löfven boðar til neyðarfundar vegna tíðra skotárása

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. Vísir/Getty
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur boðað til neyðarfundar ríkisstjórnar sinnar og fulltrúum lögreglunnar í landinu vegna tíðra skotárása að undanförnu. Fjölmargir hafa látið lífið í árásum síðustu mánaða, en á síðustu tveimur vikum hafa alls sjö látið lífið í slíkum árásum.

Löfven greindi frá ákvörðun sinni í dag en hann vill ræða hvernig ríkið geti brugðist við til að stemma stigu við þróuninni. „Mér finnst þetta vera aumir, kaldrifjaðir morðingjar sem við fáumst við nú,“ segir Löfven og að ástandið krefjist harðra viðbragða yfirvalda.

Skotárásir síðustu vikna og mánaða, meðal annars í Malmö og síðast í Örebro í gærkvöldi, hafa langflestar tengst átökum glæpagengja.

Ríkislögreglustjórinn Anders Thornberg sagði í morgun að lögregla hafi sett allan tiltækan mannafla í það að bregðast við þessum tíðu árásum tengdum glæpagengjum í landinu.


Tengdar fréttir

Tveir særðust í skotárás í Malmö

Fjölmennt lið lögreglu statt í hverfinu Nydala í sænsku borginni Malmö eftir að tilkynning barst um að tveir hafi særst í skotárás við Nydalatorg skömmu eftir klukkan 15 að staðartíma í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×