Erlent

Meðlimir sértrúarsafnaðar teknir af lífi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Shoko Asahara, leiðtogi sértrúarsafnaðarins Aum Shinrikyo
Shoko Asahara, leiðtogi sértrúarsafnaðarins Aum Shinrikyo Vísir/AFP
Sjö meðlimir japanska sértrúarsafnaðarins Aum Shinrikyo hafa verið teknir af lífi. Þeirra á meðal var leiðtogi safnaðarins, Shoko Ashara. Söfnuðurinn stóð á bakvið efnavopnaárás í neðanjarðarlestarkerfi Tókíóborgar árið 1995.

Um er að ræða mannskæðasta hryðjuverk í sögu japönsku þjóðarinnar, en alls létust 13 manns og þúsundir særðust. Sex meðlimir safnaðarins eru á lífi og allir á bakvið lás og slá.

Í yfirlýsingu japanska dómsmálaráðuneytisns kemur fram að aftökurnar hafi verið framkvæmdar í morgun. Beðið hafði verið með þær uns niðurstöður úr áfrýjunum einstaklinganna lægju fyrir, en þeim var öllum hafnað í janúar síðastliðnum. Frá árinu 2010 hafa átta manns að meðaltali verið teknir af lífi í Japan á ári hverju, en þær eru framkvæmdar með hengingu.

Shoko Ashara og félögum var einnig gefið að sök að hafa staðið á bakvið fjölda annarra morða. Til að mynda er söfnuðurinn talinn hafa framið aðra efnavopnaárás árið 1994, sem dró 8 manns til dauða og særði um 800.

Á vef breska ríkisútvarpsins er hópurinn sagður hafa komið pokum fullum af taugaefninu saríngasi fyrir í neðanjarðarlestum. Eftir nokkrar mínútur hafi pokarnir byrjað að leka og gasið fyllt klefa lestanna. Farþegarnir hafi byrjað að finna til særinda í augum og öndunarfærum áður en þeir féllu til jarðar. Flestir köstuðu upp og aðrir köfnuðu, blinduðust eða lömuðust. Sem fyrr segir létu 13 manns lífið í árásinni sem Aum Shinrikyo framkvæmdi í Tókíó í mars árið 1995.

Söfnuðurinn leit dagsins ljós á níunda áratugnum og reiddi sig í fyrstu á kenningar úr hindúisma og búddisma. Eftir því sem árin liðu innleiddi hann fleiri þætti úr heimsendaspám kristninnar í kennisetningar sínar. Leiðtogi safnaðarins, Shoko Ashara, leit á sig sem  Jesú Krist endurfæddan og þann fyrst sem telja mætti sem „uppljómaðan“ frá því að Búdda var og hét.

Þegar mest lét töldu meðlimir safnaðarins nokkra tugi þúsunda. Hann hvarf hins vegar af sjónarsviðinu eftir árásina árið 1995 og söfnuðurinn skipti að endingu um nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×