Trump ætlar að „skrifa undir eitthvað“ varðandi aðskilnað barna frá foreldrum sínum

Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, Kirstjen Nielsen, hefur unnið drög að tilskipun sem felur í sér áframhaldandi varðhald ólöglegra innflytjenda en að börn verði ekki aðskilin frá foreldrum sínum eins og verið hefur síðustu vikur. Þetta kemur fram í frétt AP.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, var heldur myrkur í máli þegar hann tilkynnti fréttamönnum að til stæði að hann myndi „skrifa undir eitthvað“ innan tíðar og bætti við að halda þyrfti fjölskyldum saman.
Fallist Trump á tilskipunina er ljóst að ákvörðunin gengur í berhögg við orð hans í gær þar sem hann sagðist valdlaus til þess að breyta fyrirkomulaginu.

Hin umdeilda innflytjendastefnu Bandaríkjastjórnar nefnist „ekkert umburðarlyndi“ og felur í sér aðskilnað barna ólöglegra innflytjenda og foreldra þeirra við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.
Vísir sagði frá því í dag Nielsen varð fyrir aðkasti mótmælenda í gærkvöldi þegar hún snæddi kvöldverð á mexíkóskum veitingastað í Washington í gær. Hópur fólks hrópaði ókvæðisorðum að henni og sagði henni að skammast sín fyrir framgöngu sína.
Tengdar fréttir

Stjörnur sniðganga Fox vegna umfjöllunar um aðskilnað barna og foreldra
Nokkrir þekktir leikstjórar og framleiðendur í Hollywood hóta að sniðganga útgáfu- og framleiðslufyrirtækið Fox vegna þess sem þeir kalla skammarlega umfjöllun fréttastöðvarinnar Fox News um aðskilnað hælisleitenda við börn sín.

New York í mál við Bandaríkjastjórn
New York ríki ætlar að höfða mál gegn Bandaríkjastjórn meðal annars á grundvelli þess að hún hafi brotið í bága við stjórnarskrá landsins.

Vilja að Ísland fordæmi harðræði Bandaríkjanna gagnvart flóttabörnum
Þingmaður Samfylkingarinnar vill að íslensk stjórnvöld fordæmi aðgerðir Bandaríkjastjórnar

Trump í hliðstæðum veruleika þrátt fyrir gagnrýni úr öllum áttum
Sótt er að Donald Trump Bandaríkjaforseta úr öllum áttum vegna innflytjendastefnu sem hefur leitt til aðskilnaðar þúsunda barna við foreldra sína á landamærunum við Mexíkó.