Erlent

Dragnea dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Liviu Dragnea er sagður vera valdamesti maður Rúmeníu.
Liviu Dragnea er sagður vera valdamesti maður Rúmeníu. Vísir/epa
Dómstóll i Rúmeníu dæmdi í dag Liviu Dragnea, formann stjórnarflokksins PSD, í þriggja og hálfs árs fangelsi. Dragnea var fundinn sekur að hafa tryggt tveimur konum launagreiðslur úr ríkissjóði á árunum 2006 til 2013, þrátt fyrir að þær hafi á þeim tíma verið starfsmenn PSD.

Dragnea neitaði sök í málinu og mun áfram vera frjáls ferða sinna þar sem dómnum hefur verið áfrýjað. Í samræmi við rúmensk lög er honum ennfremur heimilt að starfa áfram sem talsmaður og formaður flokksins á meðan málið er fyrir dómstólum.

Verði dómurinn staðfestur á æðra dómsstigi væri um mikið reiðarslag að ræða fyrir Dragnea og stjórnmálaferil hans, en hann hefur áður hlotið dóm fyrir kosningasvindl sem gerir það að verkum að honum er óheimilt að gegna embætti forsætisráðherra. Hann er þó sagður valdamesti maður landsins og stjórna á bakvið tjöldin.

Rúmenum hefur gengið erfiðlega að berjast gegn víðtækri spillingu í landinu, en tugþúsundir Rúmena mótmæltu á götum úti á síðasta ári eftir að ríkisstjórn þar í landi gerði tilraunir til að gera breytingar á dómskerfi landsins. Breytingunum var ætlað að auka pólitísk afskipti af dómskerfinu og vildu mótmælendur meina að þær myndu torvelda baráttuna gegn spillingu í landinu. Ekkert varð að lokum úr fyrirhuguðum lagabreytingum stjórnarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×