Erlent

Netflix rekur samskiptastjóra og bannar starfsfólki að segja „nigger“ óháð samhengi

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Reed Hastings segir að samhengi skipti engu máli þegar orðið er notað af hvítu fólki.
Reed Hastings segir að samhengi skipti engu máli þegar orðið er notað af hvítu fólki. Vísir/Getty
Netflix hefur rekið Jonathan Friedland, yfirmann samskiptasviðs fyrirtækisins, fyrir að nota orðið „nigger“ við tvö mismunandi tækifæri. Reed Hastings, stofnandi of forstjóri Netflix, biðst afsökunar á því að hafa ekki brugðist við fyrr.

Friedland hafði unnið fyrir Netflix í sjö ár en fyrra tilvikið átti sér stað fyrir nokkrum mánuðum. Þá var hann á fundi með öðrum stjórnendum og talið barst að móðgandi orðum í uppistandi sem Netflix streymir.

Friedland notaði orðið svo aftur við annað tækifæri fyrir nokkrum dögum þegar tveir þeldökkir kollegar hans voru að spyrja hann út í fyrra tilvikið. Hann endurtók því orðið eftir að hann var beðinn að lýsa því sem gerðist í fyrra skiptið.

Í yfirlýsingu frá Netflix segir Hastings að aðdragandinn skipti ekki máli. Sem stofnandi og stjórnandi fyrirtækisins beri hann sjálfur ábyrgð á þeirri menningu sem þar þrífist.

Hann sé sjálfur í mikilli forréttindastöðu og hafi því átt auðvelt með að réttlæta og gera lítið úr ummælunum áður en hann áttaði sig á alvarleika þeirra.

Segir Hastings hafa gert sér ljóst að samhengið skipti engu máli, hvítt fólk megi aldrei nota orðið „nigger“ undir neinum kringumstæðum, meira að segja þó að það standi í handriti eða lagatexta sem það á að fara með. Í staðinn eigi hvítt fólk að halda sig við að tala um „N-orðið“ og það gildi nú sem regla fyrir alla starfsmenn Netflix.

Sjálfur birti Friedland eina setningu á Twitter, sem hann eyddi síðan út. Þar stóð: „Ég reis hratt og féll hratt. Allt út af tveimur orðum.“


Tengdar fréttir

Netflix stærra en Disney

Netflix var um tíma í gær verðmætasta fjölmiðlafyrirtæki heims og skaust fram úr Disney sem áður vermdi fyrsta sætið. Markaðsvirði fyrirtækisins hækkaði um tvö prósent á hlutabréfamörkuðum fyrri part dags en lækkaði síðan síðdegis sem gaf Disney aftur naumt forskot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×