Fótbolti

Southgate: Næsti leikur sá stærsti í áratug

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Southgate þakkar stuðninginn í kvöld
Southgate þakkar stuðninginn í kvöld Vísir/getty
England tapaði sínum fyrsta leik á HM í Rússlandi til þessa þegar liðið tapaði fyrir Belgíu í kvöld í lokaleik riðlakeppninnar. Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, sagði næsta leik þann stærsta í áratug.

Adnan Januzaj skoraði eina mark leiksins snemma í fyrri hálfleik með góðu skoti úr teignum.

„Þetta var nokkuð jafn leikur. Þeir stjórnuðu boltanum betur þegar þeir voru með hann og áttu bestu færin í fyrri hálfleik,“ sagði Southgate eftir leikinn.

„Við áttum góð færi í seinni hálfleik. Þetta var gott próf fyrir okkur. Við viljum vinna fótboltaleiki svo við erum ekki ánægðir með það að tapa“

Marcus Rashford komst í dauðafæri eftir um klukkutíma leik en Thibaut Courtois varði skot hans.

Mikil umræða var um það fyrir leikinn að Englendingar ættu frekar að tapa þessum leik þar sem það þýði auðveldara áframhald í keppninni í 8-liða og undanúrslitum. Fyrst þarf þó að sigra Kólumbíu í 16-liða úrslitunum.

„Við vildum vinna þennan leik en næsti leikur er sá stærsti sem við höfum farið í í áratug svo við þurftum að hvíla lykilleikmenn,“ sagði Southgate en hann gerði átta breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn.

„Leikmennirnir sem spiluðu í kvöld gáfu allt sitt í leikinn. Við héldum áfram að pressa allt til loka,“ sagði Gareth Southgate.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×