Erlent

Ástralska ríkisstjórnin ætlar að biðjast afsökunar á misnotkun barna

Kjartan Kjartansson skrifar
Malcolm Turnbull forsætisráðherra ætlar að biðja fórnarlömb misnotkunarinnar afsökunar fyrir hönd stjórnvalda í haust.
Malcolm Turnbull forsætisráðherra ætlar að biðja fórnarlömb misnotkunarinnar afsökunar fyrir hönd stjórnvalda í haust. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Ástralíu hefur fallist á nær allar tillögur nefndar sem rannsakaði misnotkun barna hjá áströlskum stofnunum. Malcolm Turnbull forsætisráðherra ætlar að biðja fórnarlömbin afsökunar með formlegum hætti 22. október.

Rannsóknin stóð yfir í fimm ár. Niðurstaða hennar var að tugir þúsunda barna hefðu verið misnotaðir innan stofnana eins og kirkjunnar, skóla og íþróttafélaga.

Nefndin lagði fram 122 tillögur að úrbótum hjá alríkisstjórninni. Ríkisstjórnin segist ætla að verða við 104 þeirra en útilokar ekki að taka hinar átján upp síðar. Þannig verður meðal annars komið á fót Landsskrifstofu fyrir öryggi barna.

„Fórnarlömbin hafa sagt sína sögu og við verðum að virða þau,“ sagði Turnbull í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Fórnarlömbunum verða einnig boðnar bætur. Turnbull segir að meira en 90% þeirra muni eiga rétt á bótum sem nema 150.000 áströlskum dollurum, jafnvirði rúmlega tólf milljóna íslenskra króna. Bótaferlið fer í gang um mánaðamótin.

Flestar tilkynningar um misnotkun bárust vegna kaþólsku kirkjunnar. Forsvarsmenn hennar hafa sagt að kirkjan taki þátt í bótagreiðslunum. Þeir þvertaka hins vegar fyrir að gera breytingar sem rannsóknarnefndin lagði til, þar á meðal að breyta syndajátningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×