Erlent

Sagður hafa misnotað sér hrumleika Stan Lee

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stan Lee sést hér með umboðsmanni sínum Keya Morgan.
Stan Lee sést hér með umboðsmanni sínum Keya Morgan. Vísir/Getty
Umboðsmaður Stan Lee, stofnanda teiknimyndasögufyrirtækisins Marvel, er sagður hafa misnotað sér bágt heilsuástand umbjóðanda síns. Lögmaður Lee hefur fengið tímabundið nálgunarbann gegn umboðsmanninum, sem hefur í raun gegnt umönnunarhlutverki í lífi hins 95 ára gamla Lee á síðustu misserum.

Umboðsmaðurinn, Keya Morgan, er sagður í frétt breska ríkisútvarpsins hafa gert sig gildandi í lífi Lee eftir að eiginkona teiknimyndasögugoðsagnarinnar lést í fyrra. Morgan hafi í raun „troðið sér inn“ í tómarúmið sem hún skildi eftir sig eins og það er orðað.

Í nálgunarbannsbeiðninni er Morgan sagður ráða nær öllu er viðkemur lífi Lee, til að mynda hvar hann er búsettur og hver fái að hitta hann. Þannig hafi hann til að mynda þvingað hinn aldraða Lee til flytja af heimili sínu í fyrra. „Morgan hefur því haft óeðlileg áhrif á Lee og einangrað hann,“ segir í beiðninni. Það kemur svo í ljós í byrjun júlí hvort að nálgunarbann Lee gegn Morgan verði varanlegt.

Morgan var handtekinn á mánudag vegna gruns um að hann hafi kallað eftir aðstoð lögreglunnar að ósekju. Hann er sagður hafa tilkynnt lögreglunni að brotist hafa verið inn á heimili Lee. „Innbrotsþjófarnir“ reyndust vera tvær rannsóknarlögreglumenn og einn starfsmaður félagsþjónustunnar sem komið höfðu til að kanna aðstæður Lee.

Eftir að Morgan var sleppt úr haldi, gegn greiðslu tryggingar, birti Lee eftirfarandi myndband á samfélagsmiðlum. Í því segir hann að Morgan sé í raun eini samstarfs- og umboðsmaður hans.

Stan Lee er einn dáðasti framleiðandi teiknimynda í sögunni en eftir hann liggja ótal bækur og myndir um hetjur á borð við Köngulóarmanninn, Jarfinn og Þrumuguðinn Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×