Erlent

Geymir mynd af Kim Kardashian og Kanye West í biblíunni eftir að hafa endurheimt frelsið

Sylvía Hall skrifar
Alice Marie Johnson ásamt dóttur sinni. Hún segir Kim Kardashian West hafa bjargað lífi sínu.
Alice Marie Johnson ásamt dóttur sinni. Hún segir Kim Kardashian West hafa bjargað lífi sínu. Vísir/AP
Alice Marie Johnson, konan sem Donald Trump mildaði lífstíðarfangelsisdóm yfir nú á dögunum, er laus úr fangelsi og segist þakka Kim Kardashian West fyrir frelsi sitt og að hún hafi bjargað lífi sínu. Raunveruleikastjarnan fundaði með forsetanum í maí síðastliðnum þar sem hún fór fram á að mál Johnson yrði tekið fyrir.

Johnson, sem er 62 ára gömul, hlaut árið 1996 lífstíðarfangelsisdóm fyrir ofbeldislausan fíkniefnaglæp og er ein tveggja kvenna sem Kim Kardashian West hefur talað fyrir að fái frelsi sitt á ný. Hin konan er Cyntoia Brown, en hún situr inni fyrir morð sem hún framdi árið 2004, þá sextán ára gömul. Því hefur verið haldið fram að hún hafi verið fórnarlamb mansals, og morðið hafi verið í sjálfsvarnarskyni.

Sjá einnig: Kim Kardashian og Trump ræða fangelsismál

Í viðtali við CNN segir Johnson að hún hafi ekki vitað hver Kardashian West væri þegar stjarnan fór að tala máli hennar á opinberum vettvangi. Hún hafi lesið öll blöð og viðtöl við hana í kjölfarið og segist vera henni ævinlega þakklát fyrir frelsið, en Johnson sat inni í 22 ár og átti ekki möguleika á reynslulausn.

Kardashian West setti sig í samband við Ivönku Trump, dóttur forsetans, fyrir nokkrum mánuðum síðan sem kom málinu áleiðis til eiginmanns síns og ráðgjafa forsetans, Jared Kushner. Hann hafi síðan komið málinu á borð forsetans sem leiddi til fundar forsetans við Kim Kardashian West.

Þær Johnson og Kardashian West hittust eftir að þeirri fyrrnefndu var sleppt úr fangelsi. Í viðtali við NBC sagði Johnson að hún myndi hafa Kardashian West og eiginmann hennar, Kanye West, í bænum sínum og sagði að hún geymdi mynd af hjónunum í biblíunni sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×