Erlent

Nýsjálendingar taka upp komugjöld

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gjaldið verður notað til að byggja upp innviði og vernda nýsjálenska náttúru.
Gjaldið verður notað til að byggja upp innviði og vernda nýsjálenska náttúru. Vísir/Getty
Ferðamenn sem koma til Nýja-Sjálands munu framvegis þurfa að borga komugjald - en Ástralar fá áfram að koma frítt til landsins.

Byrjað verður að innheimta gjaldið á síðari hluta næsta árs. Það mun nema um 2400 til 3500 krónum á hvern ferðamann. Aðeins Ástralar, íbúar minni Kyrrahafseyja og börn undir tveggja ára aldri þurfa ekki greiða gjaldið.

Gjaldið verður notað til að styðja við náttúruvernd og uppbyggingu ferðamannastaða. Um 3,8 milljónir ferðamanna heimsóttu Nýja-Sjáland á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, þar af voru um 39% ástralskir ferðamenn.

Haft er eftir umhverfisráðherra Nýja-Sjálands á vef Guardian að hann vonist til að ferðamenn sýni þessu skilning. „Það er bara sanngjarnt að ferðamenn reiði fram smá framlag til að tryggja þá innviði sem þeir þurfa og vernda náttúruna sem þeir njóta,“ segir Eugenie Sage.

Gjaldið verður innheimt með rafrænum skráningarbúnaði og gert er ráð fyrir því að muni alls nema um 8 milljörðum króna á fyrsta árinu.

Aðeins nokkrar vikur eru síðan nýsjálensk stjörnvöld tilkynntu að þau hygðust tvöfalda gjaldið sem ferðamenn greiða fyrir að gista í skálum á mörgum af vinsælli gönguleiðum eyjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×