Viðskipti innlent

Refsing eiganda Buy.is milduð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is.
Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is. Vísir/vilhelm
Refsing Friðjóns Björgvins Gunnarssonar, sem var eigandi Buy.is, var milduð um tólf mánuði og tæpar fimmtíu milljónir í Landsrétti fyrir helgi. Eiginkonu hans var ekki gerð refsing þar sem brot hennar þóttu fyrnd.

Friðjón var ákærður fyrir að skila röngum virðisaukaskattsskýrslum tveggja félaga árin 2012 og 2013 og að hafa vantalið tekjur sínar gjaldárin 2011 til 2013. Alls var honum gefið að sök að hafa vantalið ríflega hundrað milljónir til skatts.

Í fyrra var Friðjón dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og til greiðslu tæplega 308 milljóna sektar fyrir skattalagabrot og peningaþvætti. Eiginkona hans hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir peningaþvætti.

Sjá einnig: Fyrrverandi eigandi Buy.is ákærður fyrir að svíkja rúmlega hundrað milljónir undan skatti



Milli þess að Friðjón var sakfelldur í héraði og þar til málið fór fyrir Landsrétt hafði Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kveðið upp dóm sinn í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn ríkinu. Málið varðaði tvöfalda refsingu vegna sama máls við meðferð skattayfirvalda og sakamáls.

Með hliðsjón af dómi MDE, og dómi Hæstaréttar í svipuðu máli síðasta haust, var Friðjón sýknaður af ákæru sem varðaði hans eigin framtöl þar sem ekki var næg samþætting í tíma við meðferð málsins hjá skattayfirvöldum og lögreglu.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess hve langan tíma tók að reka og rannsaka málið en einnig var litið til einbeitts brotavilja hans og hárra fjárhæða.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×