Viðskipti erlent

Þúsundum sagt upp hjá Deutsche Bank

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Deutsche Bank eru í Frankfurt í Þýskalandi.
Höfuðstöðvar Deutsche Bank eru í Frankfurt í Þýskalandi. VísirAP
Gert er ráð fyrir því að hinn þýski Deutsche Bank muni segja upp meira en 7000 starfsmönnum á næstu mánuðum.

Á blaðamannafundi í morgun kynntu stjórnendur bankans umfangsmiklar aðgerðir til að stemma stigu við taprekstri síðustu þriggja ára. Uppgjör bankans í febrúar síðastliðnum sýndi fram á tap upp á 60 milljarða króna á síðasta ári. Deutsche Bank tapaði 822 milljörðum króna árið 2015 og 181 milljarði árið eftir. Framkvæmdastjóra bankans, John Cryan, var sagt upp í síðasta mánuði vegna taprekstursins.

Fleirum en honum verður þó sparkað ef marka má yfirlýsingar Deutsche Bank í morgun. Þar kom til að mynda fram að starfsmönnum bankans, sem nú eru 97 þúsund talsins, verði orðnir „töluvert færri“ en 90 þúsund áður en yfir lýkur. 

Uppsagnirnar munu ná til allra útibúa bankans en bankinn hefur ekki viljað gefa upp nákvæma útlistun. Talið er að fjárfestinga- og fyrirtækjasvið bankans muni taka mestum stakkaskiptum eftir fyrirhugaða endurskipulagningu.

Ætlunin sé að minnka umfang Deutsche Bank svo að hann geti einbeitt sér að því „sem hann gerir best.“

Markaðir í Þýskalandi hafa tekið ágætlega í fregnir af endurskipulagningunni. Það sem af er degi hefur hlutabréfaverð Deutsche Bank í Frankfurt hækkað um næstum hálft prósentustig.


Tengdar fréttir

Toppi Deutsche Bank sparkað

Deutcshe Bank hefur rekið framkvæmdastjóra bankans, John Cryan, og tekur uppsögn hans strax gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×