Handbolti

Ísland mætir Tékkum á morgun: „Þær stigu fram á við en við sátum eftir“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ísland mætir Tékkum í næst síðasta leik liðsins í undankeppni EM 2018 í handbolta kvenna í Laugardalshöll annað kvöld. Lokaleikurinn er svo gegn Dönum ytra á laugardag.

Ísland er í botnsæti riðilsins með eitt stig eftir jafntefli gegn Slóveníu í Laugardalshöll fyrr á árinu. Liðið tapaði fyrir Tékkum ytra í fyrsta leik riðilsins síðasta haust.

„Ég tel okkur eiga 50/50 möguleika. Þetta lið er ekkert ósvipað Slóvenum, sem við mættum hérna heima og gerðum jafntefli við og ef við náum okkar besta leik er þetta lið sem við eigum að geta sigrað,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari, við Arnar Björnsson á blaðamannafundi í dag.

Þórey Rósa Stefánsdóttir, fyrirliði landsliðsins, tók undir það.

„Spila okkar leik vel og þá eigum við betri leik heldur en síðast og þá eigum við ágætis möguleika að mínu mati.“

„Áður fyrr var þetta lið sem við miðuðum okkur svolítið við en svo tóku þær skref fram á við en við sátum eftir. Ég er mjög spennt að spila þennan leik og máta okkur aftur við þær,“ sagði Þórey Rósa.

Efstu tvö lið hvers undanriðils fara á EM og bestu liðin í þriðja sæti. Þegar tvær umferðir eru eftir er Ísland eins og áður segir á botni riðilsins. Tvö stig eru upp í Tékkana í þriðja sætinu og Slóvenar eru í öðru sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×