Umfjöllun og viðtöl: FH - ÍBV 28-25 │ FH jafnaði metin

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Óðinn var frábær í kvöld.
Óðinn var frábær í kvöld. Vísir/ernir
FH og ÍBV mættust í öðrum leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla í kvöld.

ÍBV rúllaði yfir FH í seinni hálfleik liðanna í Vestmanneyjum um helgina og bjuggust margir við því að gestirnir myndu halda uppteknum hætti.

Svo var hinsvegar ekki. FH byrjaði af krafti og tók 7-2 forystu eftir 8 mínútna leik. ÍBV sótti þá í sig veðrið og náði að jafna í 8-8 á 15. mínútu.

Liðin skiptust þá á að skora og undirritaður hreinlega náði ekki andanum það sem eftir lifði hálfleiks.

Að lokinni sókn einum megin geystist hitt liðið í aðra sókn hinum megin á vellinum. Manni leið á köflum eins og maður væri að fylgjast með tennis þar sem boltinn gekk hreinlega það hratt á milli.

Þegar áhorfendur náðu svo loks andanum var staðan 15-13, FH í vil, og flautað til hálfleiks.

Liðin héldu áfram að skiptast á að skora þangað til korter var til loka leiks en þá fór hreinlega allt að ganga á afturfótunum hjá Eyjamönnum. Andri Heimir fékk þá tveggja mínútna brottvísun en gestirnir stoppuðu ekki þar.

Á næstu örfáum sekúndum nældu Magnús Stefánsson og Theodór Sigurbjörnsson sér einnig í tvær mínútur og skyndilega Eyjamenn þremur mönnum færri. FH-ingar færðu sér þetta í nyt og náðu í afgerandi forystu, 26-22.

Eyjamenn náðu mest að minnka muninn í tvö mörk fram að endalokum leiksins og niðurstaðan varð að lokum 28-25 sigur FH sem jafnar þar með einvígið.

Afhverju vann FH?

Leikmenn FH mættu grimmir og ákveðnir til leiks í kvöld og ætluðu sér greinilega ekki að endurtaka mistök liðsins á laugardaginn.

Allir leikmenn voru einbeittir, harðir af sér og gerðu þetta blessunarlega séð að alvöru einvígi aftur. Hefði liðið tapað í kvöld hefði allt eins verið hægt að leyfa Eyjamönnum að taka bikarinn með sér í Herjólf í kvöld.


Hvað gekk illa?

Sigurbergur Sveinsson skoraði fimm mörk. Nú gætu sumir kannski hugsað: Það er ekki svo slæmt. Hvað er vandamálið?

Ég skal segja ykkur það. Vandamálið er að hann tók 15 skot til að ná sér í þessi fimm mörk. Boltameðferðin hans var ekki honum til framdráttar. Maður býst við meiru af manni sem býr yfir svona mikilli reynslu og gæðum.

Einnig var það augljóst eftir leik að Eyjamenn voru ósáttir með dómgæsluna og ég get alveg ímyndað mér afhverju. Dæmi nú hver fyrir sig en það vantaði ákveðið samræmi í dómgæsluna og mér finnst líklega að þeim finnist hún hafa hallað aðeins á sig.

Hverjir stóðu upp úr?

Ég verð fyrst og fremst að nefna Birki Fannar í markinu hjá FH en Selfyssingurinn kom inn á fyrir Ágúst Elí eftir að honum hafði gengið illa að verja boltann.

Birkir kom inn á og var með 75% markvörslu korteri síðar er flautað var til hálfleiks og endaði leikinn með 50% vörslu og margar af þeim voru ansi mikilvægar.

Einnig má nefna Ísak Rafnsson sem skoraði fimm mörk í kvöld en fjarvera hans úr sóknarleik FH megnið af vetrinum hefur þótt heldur betur undarleg á köflum.

Síðast en alls ekki síst er það Óðinn Þór Ríkarðsson sem skoraði 10 mörk í kvöld úr 14 skotum. Hann var óstöðvandi og þá sérstaklega í hraðupphlaupum. Þessi maður var óstöðvandi í kvöld.

Hvað gerist næst?

Það er bara eitt: Leikur þrjú í Vestmanneyjum klukkan 18:30. Nokkuð ljóst að Eyjamenn muni fjölmenna en ég vona að Hafnfirðingar geri slíkt hið sama.

Halldór Jóhann: Hörku vörn, Birkir og mikill vilji skilar sigrinum

„Ég er virkilega ánægður hvernig við komum inn í leikinn og stöndum allt af okkur. Við spilum hörku vörn. Birkir frábær í markinu og mikill vilji. Það er það sem skilar þessu,“ sagði Halldór Jóhann, þjálfari FH, sem var ekki í vafa um hvað það var sem skilaði sigri kvöldsins.

Vörn, vilji og Birkir en þá vísaði hann til Birkis Fannars sem var óstöðvandi á milli stangana og endaði með 50% markvörslu í kvöld. En það var ekki bara á þeim enda vallarins þar sem FH stóð vaktina.

„Við vorum skynsamir í sókninni. Ég á eftir að skoða leikinn aftur en í minningunni finnst mér þetta vera heilsteyptur leikur hjá okkur og töluvert betur en leikur númer eitt,“ sagði Halldór sem telur einnig að FH hafi verið agaðari en ÍBV í dag en ÍBV fékk töluvert fleiri brottvísanir en FH í kvöld.

„Það skiptir máli að halda í agann í leikjum gegn ÍBV og við sýndum aga í dag og verðum að halda því áfram.“

Hann segir stuðninginn sem bæði lið fengu í kvöld hafa verið frábær.

„Það verður hver einasti leikur erfiður en okkar stuðningsmenn frábærir og gaman að sjá hversu margir komu hingað í kvöld. Frábært einvígi. Alveg eins og úrslitaeinvígi á að vera.“

Magnús Stefánsson: Eigum langbestu og flottustu stuðningsmennina

„Við ætluðum að koma hingað til að sigra. Bæði lið ætluðu sér það auðvitað. Þetta endar í hörku leik en við gerum okkur kannski seka um að vera full mikið út af,“ sagði Magnús Stefánsson, leikmaður ÍBV, eftir tap liðsins í kvöld gegn FH.

ÍBV átti erfitt með að koma boltanum framhjá fyrirnefndum Birki en hann gerði sóknarmönnum lífið leitt í kvöld.

„Birkir var frábær. Tek það ekki af honum. Þeir eru með tvo frábæra markmenn og hann kom inn og lokaðu þessu fyrir þá,“ sagði Magnús en telur þó að sóknin geti og verði að gera betur í næsta leik.

„Við þurfum bara að setja þessi færi inn. Erum að fá fullt af frábærum færum sem hann ver vel og svo eigum við 5-6 skot yfir markið. Þurfum að koma boltanum í netið.“

Hann hrósaði að lokum stuðningsmönnum ÍBV og fer vægast sagt fögrum orðum um þá.

„Við eigum langbestu og flottustu stuðningsmenn landsins. Að sjá allt þetta fólk leggja á sig þriggja tíma ferðalag til að koma og styðja við bakið á okkur. Þau eiga heiður skilinn.“

Einar Rafn: Ekki von á öðru en að vinna þegar við spilum svona

Einar Rafn var sáttur með sigur sinna manna en hann skoraði fjögur mörk fyrir FH í kvöld.

„Í fyrsta leik var vörninn út á þekju. Vorum hægir til baka en löguðum það í dag. Góðir sóknarlega. Við létum boltann vinna fyrir okkur og þá endar þetta svona fyrir okkur,“ sagði Einar en FH gaf mikið eftir í seinni hálfleikinn í Vestmanneyjum en slíkt var aldrei á kortunum í kvöld.

„Það var ekki í boði í kvöld. Maður sá neistan í öllum að þeir ætluðu að klára þetta og við gerðum það svo sannarlega.“


Hann segist fara með trölla trú í þriðja leik liðanna sem fram fer á fimmtudagskvöld klukkan 18:30.

„Við erum sterkir á heimavelli. Við vorum lélegir í síðasta leik en bættum það upp í dag. Ég á ekki von á öðru en að vinna þegar við spilum svona vel eins og í dag.“

Arnar Pétursson: Brottvísanirnar reyndust okkur dýrar

„Hann var góður í markinu. Það verður ekki af honum tekið,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, um Birki Fannar, markvörð FH, eftir 28-25 tap hans manna gegn FH í kvöld.

Þetta var annar leikur liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla og það er skammt frá því að segja að leikurinn gekk ekki sem skildi hjá deildar og bikarmeisturunum.

„Við vorum ekki alveg nógu beittir. Það verður að segjast alveg eins og er. Við vorum líka klaufar í brottvísunum og það reyndist okkur dýrt,“ sagði Arnar en ÍBV var á kafla með þrjá menn í tveggja mínútna brottvísun á einum og sama tímanum og FH nýtti sér það vel.

 

En hver var munurinn á milli liðanna í kvöld?

„Hann var ekki mikill en nógu mikill fyrir þá til að sigra þetta. Mér fannst við bara ekki nógu beittir í seinni hálfleik. Við vorum með ákveðið plan í gangi sem gekk bara ekki eftir,“ sagði Arnar sem segir þessi úrslit vera góð fyrir meðal handbolta áhugamanninn á landinu.

„Þetta er hörkueinvígi. Tvö frábær lið og nú höldum við bara áfram á fimmtudaginn.“

Hann hrósaði stuðningnum sem liðið fékk að lokum en eyjamenn fjölmenntu í kvöld og létu vel í sér heyra.

„Stuðningurinn er auðvitað bara magnaður. Algjörlega magnaður. Skemmtuninn heldur bara áfram.“

Næsti leikur liðanna fer fram í Vestmanneyjum á fimmtudagskvöldið klukkan 18:30.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira