Erlent

Líkur á að klórgasi hafi verið beitt

Andri Eysteinsson skrifar
Alþjóðaefnavopnastofnunin greindi frá niðurstöðum rannsókna sinna í dag
Alþjóðaefnavopnastofnunin greindi frá niðurstöðum rannsókna sinna í dag Vísir/AFP
Klórgasi var líklega beitt í árásum á sýrlensku borgina Saraqib í nágrenni Aleppo í febrúar.

Alþjóðaefnavopnastofnunin (OPCW) greindi í morgun frá niðurstöðum rannsókna á hylkjum sem fundust eftir árásina þann 4. febrúar síðastliðinn.

Rannsókn OPCW leiddi í ljós að miklar líkur séu á því að klórgas hafi verið í hylkjunum. Einnig þykja frásagnir vitna og rannsókn á umhverfi benda til þess að um klórgas hafi verið að ræða.

Fjöldi fólks þurfti að leita sér læknishjálpar vegna öndunarerfiðleika en ekki hefur komið fram hver stóð á bak við árásina.

Áður hefur OPCW ásamt Sameinuðu þjóðunum greint frá notkun sýrlenska stjórnarhersins á taugaeitrinu Saríni og frá notkun uppreisnarmanna á sinnepsgasi.

Ríkisstjórn Bashar Al-Assad forseta hefur áður þvertekið fyrir notkun hersins á efnavopnum og sakar þess í stað uppreisnarmenn um að setja árásirnar á svið.

Stofnunin rannsakar einnig hvort efnavopnum hafi verið beitt í árásinni á Douma í nágrenni Damaskus þann 7. apríl. Sú árás leiddi til loftárása Bandaríkjamanna, Frakka og Breta á mögulegar vopnageymslur Sýrlendinga 14. apríl.

Aðalritari OPCW, Ahmet Uzumcu, fordæmdi efnavopnaárásirnar í yfirlýsingu þar sem hann sagði árásirnar brjóta á ótvíræðu banni á efnavopnum sem sett var með Efnavopnasamningnum árið 1997, en hann undirritaði Sýrland árið 2013.


Tengdar fréttir

Skiptast á árásum í Sýrlandi

Ísraelar svöruðu misheppnaðri árás Írana með sinni mestu árás í Sýrlandi frá upphafi stríðsins þar í landi. Hvorug þjóðin virðist hafa áhuga á meiri átökum en þær búa sig þó undir hvaða atburðarás sem kann að verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×