Erlent

Völdin innan seilingar fyrir popúlista og öfgaflokka

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar

Vel hefur gengið í stjórnarmyndunarviðræðum popúlistaflokksins Fimmstjörnuhreyfingarinnar og öfga-hægriflokksins Fylkingarinnar undanfarna daga og vikur. 

Luigi Di Maio, leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar, tilkynnti blaðamönnum í dag að jafnvel verði stjórnarsáttmáli undirritaður í kvöld. Ríkisstjórnin yrði tímamót í ítölskum stjórnmálum en þetta yrði í fyrsta sinn sem aðrir flokkar en hinir hefðbundnu mið vinstri- og hægriflokkar stjórna landinu. Ennfremur yrði þetta í fyrsta sinn sem flokkar andsnúnir Evrópusambandinu stjórna stofnríki sambandsins. 

Þeir eiga enn eftir að semja um það hvaða flokkur fer með forsætisráðuneytið en að öllum líkindum verður það annað hvort Di Maio eða Matteo Salvini, leiðtogi Fylkingarinnar. Nái flokkarnir saman er líklegt að þeir muni herða innflytjendalöggjöfina sem um munar og reka tugi ef ekki hundruði þúsunda flóttamanna og ólöglega innflytjendur úr landi.

Embættismenn Evrópusambandsins eru uggandi yfir tilhugsuninni. Fyrir kosningar höfðu flokkarnir tónað niður Evrópuandúðina en nú þegar völdin eru innan seilingar hafa flokkarnir viðrað hugmyndnir á borð við að endursemja eigi um sáttmála Evrópusambandsins, koma á reglugerðum til að ríki geti yfirgefið Evrusvæðið og draga eigi úr útgjöldum Ítalíu til sambandsins.

Þó hafa flokkarnir ekki talað fyrir því að Ítalía segi sig úr sambandinu líkt og Bretland en hafa hallast að því að Ítalíu myndi vegna betur utan evrusvæðisins.

Þó að sáttmáli verði undirritaður í kvöld þarf enn að bera hann undir Sergio Mattarella, forseta landsins, sem fær lokaorðið við myndun ríkisstjórnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.