Erlent

Tugir íþróttamanna enn týndir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Arcangeline Fouodji Sonkbou er meðal þeirra sem saknað er eftir Samveldisleikana.
Arcangeline Fouodji Sonkbou er meðal þeirra sem saknað er eftir Samveldisleikana. Vísir/Getty
Enn hefur ekkert spurst til tuga íþróttamanna sem hurfu á Samveldisleikunum sem fram fóru í Ástralíu fyrir rúmum mánuði síðan.

Fjöldi íþróttamanna sem er saknað er mjög á reiki. Fyrst bárust fregnir af því að átta liðsmenn kamerúnska hópsins hefðu látið sig hverfa en fjöldinn hefur aukist hratt á síðustu vikum. Líklegt er nú talið að fjöldi þeirra týndu sé á bilinu 20 til 100 manns.

Í þeim hópi eru þó ekki aðeins íþróttamenn heldur einnig þjálfarar og aðstandendur nokkurra afrískra landsliðshópa.

Áströlsk stjórnvöld hafa hótað að senda fólkið úr landi því vegabréfsáritunin þeirra rann út á þriðjudaginn. Hins vegar sé þeim heimilt að vera áfram í landinu hyggist þeir sækja um hæli í Ástralíu.

Uppákomur sem þessar eru alls ekkert einsdæmi og segir breska ríkisútvarpið að hvörf sem þessu séu orðin algengur fylgifiskur alþjóðlegra íþróttaviðburða. Þannig hafi til að mynda 21 keppandi og þjálfari horfið þegar Ólympíuleikarnir stóðu yfir í Lundúnum árið 2012. Þar að auki hafi um 80 íþróttamenn sótt um hæli í Bretlandi.

Ástralar hafa að sama skapi fengið að kynnast sambærilegum málum á síðustu árum. Á Samveldisleikunum árið 2006 voru til að mynda 40 keppendur sem ýmist hurfu eða sóttu um hæli í Ástralíu.

Áströlsk stjórnvöld hafa ekki viljað gefa upp hvað þeim hafa borist margar hælisumsóknir í tengslum við síðustu Samveldisleika. Tuttugu og tvöþúsund hælisumsóknir voru þó samþykktar í Ástralíu á síðasta ári, þar af hlutu rúmlega 1200 manns frá Afríku hæli í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×