Umfjöllun og viðtöl: FH - Selfoss 41-38 | FH tryggði oddaleik

Gabríel Sighvatsson skrifar
Arnar Freyr var magnaður í kvöld.
Arnar Freyr var magnaður í kvöld. vísir/eyþór




Það var sýning í Kaplakrika í kvöld þegar FH og Selfoss áttust við. Þetta var fjórði leikur liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla.

Fyrir leikinn í kvöld var Selfoss yfir í einvíginu. Selfoss var í góðum málum í hálfleik, voru tveimur mörkum yfir eftir góðan kafla síðustu 10 mínúturnar.

Í seinni hálfleik hófst eltingaleikur sem varði alveg fram á lokamínúturnar. Liðin skiptust á að skora þangað til gestirnir komust tveimur mörkum yfir.

Þá hófst ótrúleg atburðarás. Selfoss fékk boltann og gat klárað þetta með marki en létu verja frá sér. 

FH-ingar fóru upp hinn endann og skoruðu og unnu boltann strax aftur og jöfnuðu leikinn til að knýja fram framlengingu. Allt gerðist þetta á einni og hálfri mínútu eða svo.

Í framlengingunni virtist FH hafa aukaorku og í síðar hálfleik framlengingarinnar komust þeir í afgerandi forystu og sigldu sigrinum heim. Oddaleikur er því framundan á Selfossi.

Af hverju vann FH?

Eftir að hafa jafnað leikinn í venjulegum leiktíma, fengu þeir auka orku og voru sterkari í framlengingunni. Bæði lið eru fráæbær sóknarlega og í kvöld skoraði FH fleiri mörk.

Hvað gekk illa?

Enn og aftur er markvarslan að plaga Selfyssinga. Ef markvarslan væri í lagi hjá þeim gæti þetta lið gert ótrúlegustu hluti. 

Það er lítið sem varnir landsins geta gert gegn þessum liðum en á tíma skoruðu liðin hinsvegar að vild.

Mikið var af brottvísunum og þetta var kannski fullharkalegt hjá liðunum á tímum.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Freyr Ársælsson skoraði fyrstu 3 mörkin hjá FH og hélt áfram frábærri frammistöðu og skoraði samtals 11 mörk fyrir heimamenn. Óðinn Þór Ríkharðsson komst einnig í tveggja stafa tölu með 10 mörk. 

Þá var Ágúst Elí Björgvinsson magnaður í markinu og 23 varðir boltar hjá honum áttu skilið að færa liðinu sigur, miðað við 10 bolta samtals hjá Selfossi.

Einar Sverrisson var enn og aftur stórkostlegur. Hann setti 15 mörk í leiknum í kvöld sem hlýtur að vera með því hæsta á ferlinum hjá þessum leikmanni. Hann mun þurfa annan svona leik á Selfossi.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur eftir nokkra daga á Selfossi í oddaleik og sigurliðið þar mætir ÍBV í úrslitum.






 

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var mjög ánægður að leikslokum

„Ég er gríðarlega sáttur með að klára þetta. Þetta var mjög erfitt, við vorum að elta lengi vel og frábært að koma svona sterkir inn í lokin og klára þetta í framlengingunni. Ég er virkilega ánægður, það var alveg svakalegur kraftur í mönnum, það er mikið hjarta og með það er ég mjög hamingjusamur.“

 

„Þetta eru tvö frábær sóknarlið, bæði lið hafa sýnt frábæran sóknarleik í öllum þessum leikjum og mér fannst bara vanta aðeins upp á varnarleikinn og það er helst þar sem við getum bætt okkur en ég er fyrst og fremst gríðarlega hamingjusamur með að vinna þennan leik. Við erum á lífi og erum búnir að vinna okkur inn rétt á 5. leiknum á Selfossi. Það verður mjög erfitt og við þurfum að búa okkur vel undir það. Við hvílumst vel á morgun og þurfum að ná góðri endurheimt.“ sagði Halldór.

 

Það var mikil harka í kvöld, 12 brottvísanir voru gefnar og línan sem dómararnir settu var stundum ekki alveg skýr.

 

„Nei, langt í frá, línan sem var sett var á einhvern veginn í byrjun og svo í seinni hálfleik voru menn kannski að fjúka út af fyrir brot sem þeir voru ekki að fjúka út af í fyrri hálfleik fyrir. Ég held þetta hafi verið svona á báða bóga, ég var ósáttur við einhverja hluti og Patti var ósáttur með einhverja hluti, ég held að þetta hafi jafnast út. Auðvitað er það aldrei gott þegar maður er að lenda mikið í skammarkróknum og fá mikið af tveimur mínútum á sig og Selfoss er mjög gott í yfirtölu og spilar það vel en við komumst í gegnum þetta og þurfum að skoða þessa hluti og fara yfir þá,“

 

Halldór er ánægður að fá tækifæri til að fara í úrslitaviðureignina.

„Það er náttúrulega bara úrslitaleikur og það var okkar takmark fyrir leikinn í dag, að vinna til að fá tækifæri á að spila úrslitaleik. Við höfum þetta móment og þennan möguleika og það er okkar að taka og grípa hann.“

 

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var súr að leikslokum.

„Við áttum að klára hann (leikinn). Við vorum tveimur mörkum yfir og vorum bara klaufar að gera það ekki og síðustu tvær sóknir voru lélegar hjá okkur og það telur í þessu. En strákarnir gáfu allt í þetta, frábær stuðningur frá fólkinu og við áttum skilið að vinna þennan leik. Við erum að spila á móti góðu liði eins og FH og vorum ekki nógu klókir í lokin.“

 

Selfoss gat klárað leikinn á síðustu mínútunni en þeir gerðu dýrkeypt mistök sem kostuðu þá að lokum leikinn. Patti vildi eftir á að sjálfsögðu að sínir menn hefðu gert hlutina öðruvísi.

 

„Það er eðlilegt þegar maður gerir mistök, við fáum tvö mörk á okkur úr hraðaupphlaupum og þá er eðlilegt að ég vildi að við gerðum eitthvað annað en þannig eru íþróttirnar og við hefðum átt að fá betri færi og spila lengur,“

 

Patti er spenntur fyrir úrslitaleiknum sem er framundan.

„Engin spurning. Þetta eru tvö hörkulið eins og sést, nú stendur einvígið 2-2, þetta eru allt búnir að vera hörkuleikir og mikið undir og mikið álag á dómurum, leikmönnum og þjálfurum og ég er alveg klár í það. Ég er auðvitað pínu pínu fúll núna útaf því mér fannst við vera með leikinn,“

 

„Liðin eru mjög jöfn og voru með 34 stig í deildinni og eru vel mönnuð. Það kemur svo sem ekkert á óvart að þetta séu spennuleikir, þetta er góður handbolti og því kemur það ekkert á óvart.“

 

„Þetta fólk á Selfossi, það kemur með okkur í þetta og auðvitað styrkir það okkur og maður fann ekki fyrir því að maður væri á útivelli og ég er hrikalega stoltur af okkar fólki í dag en fúlt að hafa ekki getað gefið þeim sigur,“ sagði Patti að lokum.

 

Arnar Freyr Ársælsson, leikmaður FH, var maður leiksins í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur en geðveikt að koma til baka, þvílíkur karakter. Þetta er gamla FH-liðið sem við erum búnir að spila saman í tvö ár núna. Þetta var geggjaður dagur.“ sagði Arnar Freyr.

 

Útlitið var orðið svart þegar Selfyssingar komust tveimur mörkum yfir í lok leiks og gátu klárað þetta með þriðja markinu.

 

„Ég held að það hafi ekki verið margir sem höfðu trú á því að við myndum koma til baka síðustu mínúturnar en við gerðum það, fáum framlengingu og þá er þetta engin spurning.“

 

„Það kemur alltaf auka „power“ þegar við komum svona til baka. Músíkin með okkur og maður finnur ekki fyrir þreytu, það spilar klárlega með.“

 

„Við eigum inni sigur á Selfossi og hann kemur á miðvikudaginn.“

 

 

 

 



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira