Innlent

Telur ólíklegt að samningar náist á morgun í kjaradeilu ljósmæðra

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir er formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir er formaður samninganefndar ljósmæðra. vísir/eyþór
Formaður samninganefndar ljósmæðra telur ólíklegt að samningar náist á morgun á næsta fundi í kjaradeilu þeirra við ríkið. Þeim hafi einungis verið boðin rúmlega fjögurra prósenta hækkun og enn ber mikið í milli. 

Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú á morgun. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir formaður samninganefndar ljósmæðra telur ólíklegt að deilan leysist á þeim fundi. Í kvöldfréttum RÚV í gær sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að kröfur ljósmæðra væru tuttugu prósentum of háar. Hún segir ummæli sem þessi ekki hjálpa til.

„Ekki miðað við þetta sem kom frá Bjarna í gær. Maður er ekki að upplifa það að það sé verið að liðka fyrir eða að fara að koma eitthvað útspil frá samninganefndinni. Maður hefur upplifað þetta sem í algjörum hnút. Á síðasta fundi með samninganefndinni fannst manni þá allavega vera samtal sem að við höfum ekki fundið svo mikið fyrir áður.“

Ljósmæðrum hefur einungis verið boðin 4,2 prósent launahækkun að sögn Katrínar. Hún segir ekki rétt að kröfur þeirra séu tuttugu prósentum yfir því. 

„Þessar upphæðir og prósentur sem að hafa verið nefndar þær eru ekki réttar.“

Hún segir ljósmæður hafa átt gott samtal við Svandísi Svavardóttur heilbrigðisráðherra.  

„Við eigum hauk í horni, eða semsagt hún skilur okkar stöðu en miðlægir kjarasamningar heyra ekki undir hennar embætti. Þetta er beint undir fjármálaráðuneyti.“

Katrín segir stefna í óefni á Landspítalanum.

„1. júní munu 19 ganga út og svo bætast fleiri við hver mánaðarmót á eftir. Maður sér ekki annað fyrir sér en að hann verði bara óstarfhæfur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×