Erlent

Masterchef-keppandi lést eftir að hafa tekið þátt í Lundúnamaraþoninu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Matt Campbell er hér til hægri á þessari mynd sem hann birti á Twitter áður en hann hélt af stað í Lundúnamaraþoninu í gær.
Matt Campbell er hér til hægri á þessari mynd sem hann birti á Twitter áður en hann hélt af stað í Lundúnamaraþoninu í gær. twitter
Fyrrverandi keppandi í sjónvarpsþáttunum Masterchef lést eftir að hafa hnigið niður í Lundúnamaraþoninu sem fram fór í gær. Maðurinn, sem hét Matt Campbell, var aðeins 29 ára gamall en hann var að hlaupa annað maraþonið sitt á tveimur vikum.

 

Dánarorsök Campbell liggur ekki fyrir en aldrei hefur verið eins heitt í Lundúnamaraþoninu líkt og í gær eða um 23 gráður.

Campbell tók þátt í Masterchef: The Professionals í Bretlandi í desember síðastliðnum en vakti strax athygli í matreiðslubransanum árið 2009, þá tvítugur, þegar hann vann á Michelin-veitingastöðum og var valinn besti ungi kokkur ársins.

 

Campbell hneig niður þegar hann var búinn að hlaupa rúma 36 kílómetra. Læknar sem eru til staðar í hlaupinu hlúðu að honum en hann lést síðan á spítala. Campbell hljóp maraþonið í minningu föður síns sem lést fyrir einu og hálfu ári en þann 8. apríl síðastliðinn hljóp hann einnig Manchester-maraþonið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×