Erlent

George Bush eldri á gjörgæslu vegna blóðsýkingar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
George Bush eldri og yngri við jarðaför Barböru Bush á laugardag.
George Bush eldri og yngri við jarðaför Barböru Bush á laugardag. Vísir/EPA
George H.W. Bush fyrrum Bandaríkjaforseti liggur á gjörgæslu. Hann var lagður inn á Houston Methodist-sjúkrahúsið í gær vegna sýkingar. Bush varð á síðasta ári langlífasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna en hann er 93 ára gamall. Hann hefur lengi glímt við veikindi og hefur á síðustu árum hefur hann notað hjólastól og rafmagnsskutlu vegna þess.

Samkvæmt frétt BBC hafði sýkingin náð að dreifast í blóðið og er fyrrum forsetinn því á gjörgæslu.

„Hann er að bregðast vel við meðferð og virðist vera á batavegi,“ sagði talsmaðurinn Jim McGrath í tilkynningu til fjölmiðla nú í kvöld. Samkvæmt heimildum BBC fékk forsetinn lífshættulega blóðsýkingu og var um tíma í alvarlegri hættu.

Barbara Bush, fyrrverandi forsetafrú og eiginkona George W. H. Bush, lést þann 17. apríl síðastliðinn og var jörðuð á laugardag. Hún var 92 ára að aldri og hafði átt við alvarleg veikindi að stríða. Hjónin fögnuðu 73 ára brúðkaupsafmæli í janúar á þessu ári.

Bush eldri komst ekki bara í fréttirnar á síðasta ári fyrir að verða langlífasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Að minnsta kosti átta konur stigu fram og sökuðu Bush um að hafa snert þær á óviðeigandi hátt. Hann gekkst við því að hafa þuklað á afturenda kvenna, en sagði að ásetningurinn hafi verið góður. Hann baðst afsökunar á framferði sínu.


Tengdar fréttir

Barbara Bush látin

Bush var eiginkona 41. forseta Bandaríkjanna og móðir þess 43.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×