Enski boltinn

Salah: Mér er alveg sama um allt annað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Vísir/Getty
Mohamed Salah á möguleika á að vinna til margra einstaklingsverðlauna í vor og setja nokkur met á þessu tímabili. Það er samt aðeins eitt sem skiptir hann mestu máli og það er að vinna Meistaradeildina.

Blaðamaður Telegraph sagði ensku miðlana hafa fengið sjaldgæft viðtal við egypska framherjann eftir að hann hafði skorað eitt marka Liverpool í 3-0 sigri á Bournemouth um helgina.

„Ég vil bara vinna Meistaradeildina, mér er sama um allt annað,“ sagði Mohamed Salah eftir að hann hafði skorað 40. mark sitt fyrir Liverpool á tímabilinu.

„Ef ég þyrfti að velja á milli Meistaradeildarinnar og einstaklingsverðlauna eins og gullskóinn þá myndi ég auðvitað velja Meistaradeildina,“ sagði Mohamed Salah og bætti við:

„Það væri risastórt fyrir alla ef við næðum að vinna Meistaradeildina,“ sagði Salah.





Blaðmennirnir gengu samt á Egyptan og spurði hann út í markasýningu hans á fyrsta tímabilinu á Anfield.

„Það skipti mig samt miklu máli að vera búinn að ná 40 mörkum og það er frábær tilfinning að vera aðeins þriðji Liverpool maðurinn sem nær því,“ sagði Salah en hinir eru Ian Rush og Roger Hunt.

Ian Rush á metið á einu tímabili sem eru 47 mörk tímabilið 1983-84. Rush náði því í 65 leikjum en Mohamed Salah getur mest spilað 52 leiki.

„Ég er kominn nálægt því, þetta eru bara sjö mörk. Sjáum til. Ég veit ekki hversu marga leiki ég fæ, en það eru eftir leikir í ensku deildinni og svo undanúrslitin í Meistaradeildinni. Öll mörkin mín, eru eins og annarra í liðinu, til að hjálpa liðinu,“ sagði Mohamed Salah.

Salah vildi ekkert tjá sig um það að Harry Kane hafi fengið skráð á sig markið á móti Stoke. „Ég vil ekkert segja um það. Þeir ákváðu að þetta var hans mark og þá er þessu máli bara lokið,“ sagði Salah.

„Auðvitað er ég samt að hugsa um möguleikann á því að vinna gullskóinn. Þið sjáið það líka hjá liðinu því allir eru að reyna að koma boltanum til mín. Ég er viss um að Tottenham leikmennirnir séu líka að reyna að hjálpa Harry Kane og leikmenn Manchester City eru að reyna að hjálpa Sergio Aguero,“ sagði Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×