Skoðun

Vanefndir borgaryfirvalda í skólamálum

Þórdís Pálsdóttir skrifar
Skólabyggingar og skólaumhverfi þurfa fyrst og síðast að taka mið af þörfum nemenda. Öryggi og heilsa nemenda á ávallt að vera í forgrunni.  Góð stefna sem auðvelt er að framkvæma og fylgja eftir ef vilji er fyrir hendi.  

Sjálf hef ég starfað að skólamálum síðastliðin 24 ár eða frá árinu 1994 og á þeim tíma hef ég öðlast þekkingu og samanburð frá ári til árs. Þegar kemur að aðstöðu barnanna þori ég að fullyrða að framtaksleysi núverandi meirihluta í Reykjavík í skólamálum sé augljóst þegar litið er til skóla í Grafarvogi, nánar tiltekið þann skóla sem stendur mér næst en það er ekki einsdæmi. Þess vegna rennur mér eiginlega blóðið til skyldunnar, ef svo má segja, þegar kemur að því að deila því með ykkur hvernig aðstöðu barnanna er fyrirkomið í skólanum sem ég starfa í.

Þrjátíu manns í sextíu fermetrum

Byrjum á námsaðstöðunni. Skólastofan er þéttsetin börnum sem hafa sum hver náð stærð fullorðinna einstaklinga.  Ímyndið ykkur, sem fullorðið fólk, að sitja með hátt í 30 öðrum einstaklingum í rúmlega 60 fermetrum í 5 – 6 klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar.  Væri það ásættanleg vinnuaðstaða fyrir ykkur?  Í sömu þéttsetnu stofunni eru tveir gluggar, með opnanlegum fögum, í sömu hæð og skrifborðin, gluggarnir snúa í suðurátt og því oft ansi heitt.  Fimm stillingar eru á viftunni sem er í loftinu og ef hún er stillt á miðstillingu þá fjúka blaðsíður til og þurrkur kemur í augu barnanna. Algerlega óviðunandi.

Það er í öllu falli fjarstæðukennt hversu litlu fjármagni er varið til að skipta upp stórum árgöngum.  Stjórnendur skóla eiga að hafa það vald að geta metið aðstæður í árgöngum og haft meira frjálsræði við ráðstöfun fjármagns. Þá þannig að það bitni ekki á öðrum árgöngum og/eða öðru skólastarfi.  Í dag er þessu þannig háttað að nauðsynlegt er að skera niður á einum stað ef koma á til móts við stóra eða mjög fjölbreytta árganga. Það segir sig sjálft að þetta fyrirkomulag er ekki gott fyrir neinn, hvorki nemandann né kennarann.

Sett aftast á forgangslista borgaryfirvalda

Færum okkur næst yfir í mötuneytið. Matsalur barnanna er í miðrými. Af hverju? Jú, því fræðslustjóra á þeim tíma fannst það sniðug hugmynd.  Þrír útgangar eru á mötuneytinu, allir í sitthvora áttina og þegar kalt er úti þurfa börnin að borða í kuldanum, sem verður til þess, skiljanlega, að þau vilja gjarnan fá að borða í úlpunum sínum.  

Í miðrýminu er mjög hátt til lofts og bergmálar hressilega sem er líka ósanngjarnt gagnvart börnunum.  Við úttekt var sú ákvörðun tekin að setja upp hitablásara í anddyri útganga til að koma í veg fyrir kulda. Þá var einnig ákveðið að setja upp skilrúm í matsalnum sem áttu að dempa bergmálið. Hitablásararnir björguðu miklu en skilrúmin hafa engu skilað enda ekki enn komin hús þó nú séu liðin tvö ár frá niðurstöðum úttektar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þau voru sett aftast á forgangslista borgaryfirvalda því þau voru svo dýr og „fansí“.

Þá er komið að skólalóðinni. Skólinn var byggður 1991.  Skólalóðin hefur setið á hakanum hjá borginni í mörg, mörg ár.  Foreldrasamfélagið sendi marga tölvupósta og myndir af lóðinni, sem áttu að varpa ljósi á ófremdarástand, en ekkert gerðist.  Ungt barn kom með móður sinni að skólanum og spurði hvort þarna inni væru kýr, slíkt var forarsvaðið fyrir utan skólann. Hér eru engar ýkjur. 

Eftir nokkurn tíma voru lagðar hellur með fram skólanum.  Brekkan á skólalóðinni var hættuleg, rennibrautin var hættuleg og kastalinn enn verri.  Börnin voru farin að slasa sig á öllum stöðum.  Þegar svo var komið gyrti borgin sig loks í brók, þó bara til hálfs og lagaði umhverfið að einhverju leyti.  Sumir skólar hafa jafnvel fengið upplyftingu tvisvar á meðan skólalóðin okkar er enn ókláruð.

Þá hafa börnin, stjórnendur og foreldrasamfélagið margítrekað beðið um svokallaða battavelli, raunar í mörg, mörg ár, en ekkert gerist. Þetta er eini skólinn í Grafarvogi sem ekki er með þá, einungis malbikaða og götótta fótboltavelli sem geta verið hættulegir, sérstaklega ef þeir eru ísilagðir.

Þessi vandræðagangur meirihlutans gengur ekki lengur. Við verðum að gera betur þegar kemur að börnunum okkar. Það verður ekki lengur við það unað að ákvarðanir séu teknar miðlægt með þeim hætti sem lýst er hér að ofan. Við verðum að gera skólana að öflugri, sterkari og sjálfstæðari menntastofnunum. Þar spilar aðstaða sem börnin okkar búa við í skólunum lykilhlutverk. 

Höfundur er grunnskólakennari í Grafarvogi og frambjóðandi í 13. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×