Erlent

Xabi Alonso sakaður um skattsvik

Kjartan Kjartansson skrifar
Baskneski knattspyrnumaðurinn Xabi Alonso lék síðast með þýska liðinu Bayern München. Hann lagði skóna á hilluna í fyrra.
Baskneski knattspyrnumaðurinn Xabi Alonso lék síðast með þýska liðinu Bayern München. Hann lagði skóna á hilluna í fyrra. Vísir/Getty
Saksóknarar á Spáni saka Xabi Alonso, fyrrverandi leikmann knattspyrnuliðanna Liverpool og Real Madrid, um skattsvik á árunum sem hann spilaði fyrir spænska liðið. Alonso neitar sök en allt að fimm ára fangelsi liggur við brotunum.

Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að Alonso sé sakaður um að skulda spænska ríkinu tvær milljónir evra vegna tekna af ímyndarrétti sem hann gaf ekki upp til skatts. Alonso lék með Real Madrid frá 2010 til 2012.

Auk fangelsisrefsingar krefjast saksóknararnir þess að Alonso greiði fjórar milljónir evra auk skattsins sem spænska ríkið telur sig hafa verið hlunnfarið um.

Fjármálaráðgjafi Alonso er einnig ákærður og krefjast saksóknararnir sömu refsingar yfir honum. Þá er stjórnandi portúgalsks félags sem ráðgjafinn á að hafa notað til að forðast að greiða skattinn ákærður.

Spænsk skattayfirvöld hafa undanfarið sótt nokkurn fjölda knattspyrnumanna til saka. Þekktastur þeirra er Lionel Messi, framherji Barcelona og argentínska landsliðsins, sem var dæmdur í 21 mánaðar skilorðsbundið fangelsi.

Þá hefur Cristiano Ronaldo, stórstjarna Real Madrid, verið sakaður um að skjóta undan milljónum evra. Hann hefur vísað öllum slíkum ásökunum á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×