Erlent

Alþjóðabankinn varar við meiriháttar fólksflutningum vegna hlýnunar loftslags

Kjartan Kjartansson skrifar
Svæði sem eru nú þegar þurr eru líklega til að verða enn þurrari í hlýnandi heimi. Verri þurrkar og meiri öfgar í veðri eiga eftir að halda áfram að ógna samfélagum manna á þessari öld.
Svæði sem eru nú þegar þurr eru líklega til að verða enn þurrari í hlýnandi heimi. Verri þurrkar og meiri öfgar í veðri eiga eftir að halda áfram að ógna samfélagum manna á þessari öld. Vísir/AFP
Loftslagsbreytingar munu leiða til þess að milljónir manna flytji búferlaflutningum innan ríkja og á milli þeirra fyrir miðja öldina. Alþjóðabankinn varar við því að við þessar tilfærslur geti orðið til hættulegar aðstæður þar sem tugir milljóna manna troða sér inn í fátækrahverfi sem eru þegar yfirfull.

Vísindamenn reikna með því að með áframhaldandi hlýnun jarðar af völdum manna muni veðuröfgar meðal annars verða algengir, yfirborð sjávar hækka auk þess sem þurrkar verði algengari á sumum svæðum. Lengi hefur verið varað við því að þessar breytingar á umhverfinu geti leitt til gríðarlega fólksflutninga.

Undir þær áhyggjur tekur Alþjóðabankinn í nýrri skýrslu. Sérfræðingar hans skoðuðu þrjú svæði í þriðja heiminum þar sem meira en helmingur íbúa þróunarríkja búa. Þeir telja líklegt að meira en 150 milljónir manna muni flytja sig um set innan ríkjanna vegna loftslagsbreytinga fyrir árið 2050. Í Afríku sunnan Saharaeyðimarkarinnar geti 86 milljónir manna lent á hrakhólum, fjörutíu milljónir í suðurhluta Asíu og sautján milljónir í Rómönsku Ameríku.

Enn hægt að bregðast við og forðast neyðarástand

Fólksflutningar af þessari stærðargráðu geti valdið gríðarlegum samfélagslegum röskunum og ógnað stjórnarfari og efnahagslegri- og félagslegri þróun, að því er segir í frétt The Guardian. Til geti orðið „hættustaðir“, bæði á þeim svæðum sem fólk yfirgefur og á þeim sem það flyst til.

Bankinn bendir þó á að enn sé hægt að forðast verstu mögulegu sviðsmyndirnar. Fólksflutningar af völdum loftslagsbreytinga muni eiga sér stað en hægt sé að koma í veg fyrir neyðarástand.

Mikilvægast sé að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Einnig leggur bankinn til að ríkisstjórnir um heim allan geri ráð fyrir fólksflutningum og leggi meiri áherslu í að afla gagna fyrir skipulag í framtíðinni.

Þegar hefur hlýnað um 1°C frá því fyrir iðnbyltingu vegna stórfelldrar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi. Verði losunin ekki takmörkuð er reiknað með að hlýnun gæti náð allt að 4-5°C fyrir lok þessarar aldar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×