Viðskipti innlent

Hrefna Sætran opnar veitingastað við Hjartagarðinn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hrefna Rósa Sætran matreiðslumaður.
Hrefna Rósa Sætran matreiðslumaður. Vísir/Stefán
Hrefna Rósa Sætran matreiðslumeistari og veitingahúseigandi undirbýr nú opnun veitingastaðar í Reykjavík ásamt meðeigendum. Ágúst Reynisson sem á með Hrefnu bæði Fisk- og Grillmarkaðinn og  Guðlaugur Frímannsson meðeigandi þeirra að Grillmarkaðnum eru á bak við nýja veitingahúsið og svo bætast við eigendahópinn þeir Axel Clausen og Eysteinn Valsson sem hafa unnið með þeim í fjölda ára.

„Við ákváðum fyrir nokkrum árum, þrem eða fjórum árum, að opna nýjan veitingastað. Í stað þess að byrja á því að finna húsnæði eins og oft er gert þá ákváðum við að byrja á því að gera matseðilinn og ákveða hvað við myndum bjóða upp á, finna okkar sérstöðu í því,“ segir Hrefna í samtali við Vísi.  

Nýi staðurinn verður stærri en Grillmarkaðurinn og verður stemningin létt og skemmtileg. Mikil leynd hvílir yfir staðnum en stefnt er að opnun í júní á þessu ári.

„Við byrjuðum á að vinna með hráefnið. Fundum hráefni sem við höfum verið að vinna í og rækta undanfarin ár og það verður smá skrautfjöður á staðnum. Við viljum samt ekki segja alveg strax hvað það er.“

Stemningin og matseðillinn voru því ákveðin áður en þau fóru að leita að húsnæði. Varð húsnæði á horni Laugarvegs og Klapparstígs svo fyrir valinu og segir Hrefna að það sé algjört draumahúsnæði fyrir stað sem þennan.

„Okkur fannst það mjög spennandi af því að það er á flottum stað. Staðurinn á að vera svolítið léttur og húsnæðið býður upp á mörg sæti og flott útisvæði. Okkur langaði að hafa þannig af því að við erum ekki með það á hinum stöðunum. Þessi staður verður léttur og það verður svona brasserie stíll.“

Hrefna segir að þegar hún opnaði Fiskmarkaðinn fyrir 11 árum síðan hafi hún ekki gert sér grein fyrir því hversu farsælt þetta ævintýri ætti eftir að verða.

„Við höfum tekið þessu frekar rólega. Sumir sem eru með svona staði eru að opna miklu hraðar. Við viljum koma stöðunum vel á fót og svo fara að huga að nýju. Það hefur alltaf verið okkar pæling.“


Tengdar fréttir

Grillmarkaðurinn kaupir hlut í Skúla Craft bar

Grillmarkaðurinn hefur keypt hlut í Skúla Craft Bar. Þetta staðfestir Hrefna Rósa Sætran, eigandi Fisk- og Grillmarkaðarins. "Þeir voru þrír sem áttu barinn og einn er áfram og Grillmarkaðurinn á þá tvo þriðju eftir þetta,“ segir Hrefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×