Viðskipti innlent

Hreyfill býr sig undir breyttar aðstæður og sækir um vörumerkið Suber Taxi

Kjartan Kjartansson skrifar
Unnið er að breytingum á lagaumhverfi leigubíla á Íslandi sem gætu orðið að veruleika á næstu árum.
Unnið er að breytingum á lagaumhverfi leigubíla á Íslandi sem gætu orðið að veruleika á næstu árum. Vísir/Vilhelm
Framvæmdastjóri leigubílastöðvarinnar Hreyfils segir fyrirtækið hafa sótt um vörumerkið Suber Taxi til að búa sig undar breyttar aðstæður á leigubílamarkaði á Íslandi á næstu árum. Ekki standi þó til að opna farveitu á borð við Uber á næstunni.

Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að Hreyfill hefði sótt um einkaleyfi á vörumerkinu Suber Taxi hjá Einkaleyfastofu í febrúar. Vörumerkið flokkist undir leigabílaþjónustu sem bókast með snjallforriti.

Sæmundur Kr. Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, segir við Vísi leigubílaumhverfið á Íslandi muni breytast verulega á næstu árum með nýjum lögum sem eru í undirbúningi. Fyrirtækið sé að hugsa fram í tímann og búa sig undir breytt umhverfi, meðal annars um að sækja um vörumerkið.

„Ef þróunin verður þannig að við myndum fara út í farveiturekstur þá er þetta bara merki sem við ætlum að nota þar. Það er ekkert víst að við þurfum á því að halda en þetta er bara einn liður í því að mæta breyttu lagaumhverfi,“ segir hann.

Geta boðið upp á þjónustuna fyrir þá sem kæra sig um hana

Ekki standi hins vegar til að hefja rekstur farveitu alveg á næstunni. Það yrði ekki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári, allt eftir því hvenær frumvarp um breytingar á lögum um leigubíla verður lagt fram og verður mögulega að lögum. Þá útilokar Sæmundur ekki að kveðið yrði á um aðlögunartíma.

Hreyfill heldur þegar úti eigin snjallforriti fyrir akstursþjónustu sína og telur Sæmundur að fyrirtækið fullnægi þörfum markaðarins með því. Suber Taxi myndi gera Hreyfli kleift að bjóða upp á farveituþjónustu fyrir þá bílstjóra sem kæra sig um að starfa í því umhverfi.

Vinnuhópur á vegum samgönguráðherra hefur unnið að tillögum um breytingar á lögum um leigubíla eftir að Eftirlitsstofnun EFTA komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði núverandi laga brytu gegn EES-samningnum. Sérstaklega var gerð athugasemd við fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum.


Tengdar fréttir

Vill viðhalda stöðvarskyldu leigubílstjóra

Leigubílstjórum líst illa á þær hugmyndir um að opna fyrir óhefta samkeppni á leigubílamarkaði og segja að það grafi undan atvinnuöryggi þeirra. Formaður bifreiðastjórafélagsins Fylkis á Suðurnesjum segir nauðsynlegt að viðhalda stöðvarskyldu bílstjóra til að tryggja öryggi farþega.

Telur íslensku lögin um leigubíla fela í sér hindranir andstæðar EES

Yfirmaður hjá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, telur að ákvæði íslenskra laga um leigubifreiðar feli líklega í sér hindranir sem brjóti gegn EES-samningnum. Norska samgönguráðuneytið leggur til að fjöldatakmarkanir á leigubílum þar í landi verði felldar úr gildi en norsku lögin eru keimlík þeim íslensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×