Viðskipti innlent

Bónusgreiðslur hífðu upp forstjóralaun

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Árslaun Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, námu tæpum 103 milljónum í fyrra og hafa hækkað um 41 prósent frá
árinu 2014. Hækkun milli ára skýrist af bónusgreiðslum vegna afkomu félagsins 2016.
Árslaun Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, námu tæpum 103 milljónum í fyrra og hafa hækkað um 41 prósent frá árinu 2014. Hækkun milli ára skýrist af bónusgreiðslum vegna afkomu félagsins 2016. Vísir/stefán
Árslaun og hlunnindi Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, sem námu nærri 103 milljónum króna á síðasta ári, hafa hækkað um 41 pró- sent eða ríflega 30 milljónir króna frá árinu 2014. Heildargreiðslur til forstjórans hækkuðu um tæp níu prósent árið 2017 frá fyrra ári en þar munar mest um rúmlega 8,9 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur vegna ársins 2016.

Hærri árangurstengdar greiðslur til forstjórans í fyrra má rekja til bættrar afkomu Eimskips árið 2016 þegar félagið skilaði 21,9 milljónum evra í hagnað samanborið við 17,8 milljónir árið 2015. Á árinu 2017 dróst hagnaður félagsins þó aftur saman og nam 16,8 milljónum evra. Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip kom ekki til bónusgreiðslna vegna afkomu ársins 2017, þar sem stjórnendur höfðu ekki náð settum markmiðum í rekstri. 

Upplýsingar um laun og hlunnindi eru sundurliðaðar í ársreikningi Eimskips en til hlunninda teljast árangurstengdar greiðslur, ferðapeningur, framlag í lífeyrissjóði og húsnæðis- og bifreiðahlunnindi. Samkvæmt ársreikningum Eimskips hafa grunnlaun forstjórans hækkað úr 55,9 milljónum árið 2014 í 67,4 milljónir í fyrra, eða um 11,5 milljónir.

Miðað við grunnlaun voru mánaðarlaun forstjórans 5,6 milljónir í fyrra, en með hlunnindum námu þau 8,6 milljónum. 

Launaskrið hefur sömuleiðis verið hjá öðrum yfirstjórnendum félagsins. 

Laun og hlunnindi sex framkvæmdastjóra Eimskips námu alls 245,4 milljónum króna í fyrra samanborið við 191,8 milljónir árið áður. Grunnlaun þeirra hækkuðu um 15,5 prósent milli ára eða sem nemur 22,8 milljónum króna en mest munar um 69 prósenta hækkun á hlunnindalið vegna bónusgreiðslna sem námu alls 30,7 milljónum.

Hækkun á launum og hlunnindum framkvæmdastjóranna nemur alls um 28 prósentum eða sem nemur 53,5 milljónum króna milli ára. Hlutabréfaverð Eimskipafélags Íslands hf. er nánast á sama stað í dag og við skráningu undir lok árs 2012 en fyrir aðalfundi félagsins sem fram fór í gær lá fyrir tillaga um að greiða hluthöfum félagsins 1.269 milljónir króna í arð.

Sex lífeyrissjóðir eru meðal tíu stærstu hluthafa Eimskips. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næststærsti hluthafi félagsins með 13,9 prósenta eignarhlut en Gildi lífeyrissjóður er fjórði stærsti með rúm 9,4 prósent.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×