Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 69-71 │Danero Thomas skaut ÍR í undanúrslit

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Danero Thomas og Hlynur Bæringsson
Danero Thomas og Hlynur Bæringsson Vísir/Andri Marinó
Stjarnan og ÍR mættust í kvöld í fjórða leik í einvígi liðanna í undanúrslitum Dominos deildar karla í körfubolta.

Stjarnan byrjaði mun betur og tók frumkvæðið snemma í leik á meðan ÍR-ingar virtust hreinlega ekki vera í takt. Staðan var á tímabili í 1. leikhluta 23-9, Stjörnunni í vil. En ÍR-ingar fundu taktinn á endanum og þegar 1. leikhluta lauk var staðan 26-19. Þar á eftir var þetta hrikalega jafnt og skiptust liðin á að skora alveg til leiksloka.

Staðan var 36-38 þegar 2. leikhluta lauk og ljóst að þessi leikur ætlaði að taka háspennuna alla leið.

Eftir þriðja leikhluta var staðan sem fyrr, hnífjöfn, eða 53-52, Stjörnunni í vil. Háspennan var í hámarki og þegar ein mínúta var eftir tók Stjarnan forystuna í fyrsta sinn í dágóðan tíma.

ÍR jafnaði og Stjörnunni mistókst að skora stig og því fengu gestirnir boltann að nýju. Aðeins um 20 sekúndur voru eftir þegar ÍR náði boltanum og þegar aðeins ein sekúnda var eftir söng boltinn ofan í körfunni eftir að Danero Thomas tók frábært skot.

Lokatölur 69-71, ÍR í vil.

Afhverju vann ÍR?

ÍR tók fleiri fráköst í kvöld. Og „fleiri“ er ekki nógu sterkt orð. ÍR tók 59 fráköst og Stjarnan einungis 39. Þessi 20 fráköst sem skilja á milli komu í formi sóknarfrákasta en ÍR tók tuttugu slík en Stjarnan aðeins fimm.

Þar saknaði Stjarnan Hlyns Bæringssonar en hann spilaði ekki í dag vegna höfuðhöggs sem hann hlaut í síðasta leik. Hlynur er auðvitað frábær leikmaður og þá sérstaklega í fráköstunum en oft er engu líkara en að boltinn sogist að honum.

En á móti kemur þá var Ryan Taylor í banni vegna höggsins og hann er líka lykilmaður í fráköstum Breiðhyltingana. ÍR fann leið til að fylla upp í gatið. Stjarnan ekki. Það skilaði ÍR í undanúrslit.

Hvað gekk illa?

Þar sem við erum búin að fara yfir frákasta vandræði Stjörnunnar þá er vert að taka fyrir skotnýtingu liðanna en hún var á löngum köflum ansi slæm.

Tveggja stiga skotnýting er undir 50% hjá báðum liðum og þriggja stiga nýtingin var alls ekki eitthvað til að hrópa húrra yfir.

Spennan var svo sannarlega til staðar í dag en það var ekki fyrir tilstilli gæða.

Hverjir stóðu upp úr?

Danero Thomas var frábær í þessum leik. Hann skoraði úrslita körfuna og steig svo sannarlega upp í fjarveru Ryan Taylor. Hann skoraði 24 stig og tók 21 fráköst. 21 frákast! Ótrúlegt.

Hann var algjör lykill að þessum sigri. Ég er þó með smá last á hann en hann tók full oft þriggja stiga skot og það gekk ekki vel. Hann hitti aðeins tvisvar sinnum í þrettán tilraunum.

Tómas Þórður var góður í vörn hjá Stjörnunni en vakti ekki mikla lukku á hinum enda vallarins. Hann skoraði 21 stig en var aðeins með 47% nýtingu á tveggja stiga skotum.

Hvað gerist næst?

Stjarnan er komið í mjög langt páskafrí og er sögu þeirra á þessu tímabili lokið. ÍR fer í undanúrslit og það á eftir að koma í ljós hvaða liði þeir mæta þar.

ÍR er þriðja liðið til að tryggja sig í undanúrslit en nú hafa KR, Tindastóll og ÍR tryggt sæti sitt þar. Haukar og Keflavík eiga enn eftir að útkljá sín mál en liðin eigast við annað kvöld í Keflavík í 4. leik liðanna.

Stjarnan-ÍR 69-71 (26-19, 10-19, 17-14, 16-19)

Stjarnan:
Collin Anthony Pryor 22/8 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 21/10 fráköst/4 varin skot, Róbert Sigurðsson 14/7 fráköst/7 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/4 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 4/5 fráköst, Dúi Þór Jónsson 1.

ÍR: Danero Thomas 24/21 fráköst/3 varin skot, Matthías Orri Sigurðarson 14/6 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 12/6 fráköst, Sveinbjörn Claessen 8/4 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 6/4 fráköst, Kristinn Marinósson 3, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2, Daði Berg Grétarsson 2.

Danero: Þetta var klikkað maður

„Þetta var klikkað maður,“ sagði Danero Thomas, hetja ÍR, eftir að hans sigurkarfa skaut honum og hans mönnum í undanúrslit.

„Við þurftum á þessu að halda. Þetta var stórt. Ryan var ekki með og því þurftu allir að stíga upp í kvöld,“ sagði Danero en samlandi hans frá Bandaríkjunum var á dögunum dæmdur í þriggja leikja bann fyrir vafasöm samskipti hans við Hlyn Bæringsson, leikamann Stjörnunnar. En eins og frægt er orðið virtist Ryan slá Hlyn viljandi í hausinn.

En með Ryan úr liðinu var ljóst að Danero Thomas fengi meiri ábyrgð í kvöld og hann stóð undir því.

„Ég þurfti að passa mig á að þreyta mig ekki um of því ég var alltaf að fara að spila allan leikinn fyrst Ryan var ekki með,“ sagði Danero. Aðspurður hvort það hefði verið erfitt að undirbúa sig andlega fyrir leikinn með alla umræðuna sem var í gangi sagði Danero svo vera ekki.

„Ég er 31 árs. Ég er vanur þessu. Þetta kemur með reynslunni,“ sagði Danero en reynslan hefur vafalaust hjálpað honum í úrslitaskotinu.

„Ég vissi að við þurftum á stóru úrslitakskoti og ég treysti Matthíasi. Ég vissi að ef hann tæki ekki þetta skot þá myndi hann finna mig.“

Hrafn Kristjánsson.Vísir/Andri Marinó
Hrafn: Stoltur af strákunum

„Ég get ekki annað en verið stoltur af baráttunni sem strákarnir mínir sýndu hér í kvöld. Ég get ekki beðið um mikið meira,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar eftir tap hans manna gegn ÍR.

Hann sagði yfir litlu að kvarta yfir leik kvöldsins en tók fram að hann væri kannski ekki jafn sáttur „í stóra samhenginu.“

„Eftir á að hyggja hefði maður viljað að það hefði verið tekið á málinu á gólfinu í síðasta leik. En ÍR-ingarnir eru með frábært lið og munu veita hvaða liði sem þeir mæta erfiðan leik,“ sagði Hrafn sem telur þó að hans menn hefðu átt að vinna og segir að tímabilið sé undir væntingum.

„Ég er ekki sáttur með þennan leik. Auðvitað áttum við að vinna í kvöld. Við bjuggumst samt við fyrir tímabil að þetta væri ár breytinga og við yrðum kannski í einhverjum vandræðum með breytingarnar. En þetta er undir okkar væntingum engu að síður.“

Borche Ilievski.vísir/andri marinó
Borche: Sorglegt að tveir bestu leikmennirnir spiluðu ekki

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var ánægður með sigurinn en sagði þó að fjarvera Ryans og Hlyns hafi verið svartur blettur á leiknum.

„Ég var ekki ánægður að tveir bestu leikmenn liðanna voru ekki að spila. Hlynur spilaði ekki. Ryan spilaði ekki. Það var sorglegt,“ sagði Borche og viðurkenndi fúslega að þetta hafi ekki verið besti leikur liðanna í vetur.

„Þetta var ekki mjög fallegur leikur en við lönduðum þessu,“ sagði Borche.

Borche kom svo með sprengju í lokin er hann tilkynnti að það kæmi nýr leikmaður til liðsins á næstu dögum.

„Það kemur leikmaður frá Kanada og hann mun spila með okkur í næsta leik,“ sagði Borche. Nú er komið fram að sá leikmaður er Hjalti Friðriksson, sem spilaði með ÍR á síðasta tímabili.

Matthías Orri Sigurðarson.Vísir/Bára
Matthías Orri: Ömurlegt að Hlynur hafi ekki getað spilað

„Ég var ekki í sambandi til að byrja með. Þetta er búið að vera löng sería og ég er bara orðin svolítið þreyttur. En það skiptir ekki máli núna. Ég steig upp í 4. leikhluta og skoraði 7 stig þegar liðið þurfti á mér að halda,“ sagði Matthías Orri, leikmaður ÍR, eftir nauman, 69-71, sigur á Stjörnunni þar sem sigurinn réðst á sigurkörfu á lokasekúndu leiksins.

Lykilinn að sigrinum lá í fráköstunum en ÍR gjörsamlega pakkaði saman Stjörnunni í dag á þeim bænum en ÍR tók 59 fráköst gegn einungis 39 fráköstum frá Stjörnunni.

Af þessum 59 fráköstum voru 20 sóknarfráköst en Stjarnan náði einungis fimm slíkum.

„Þetta snérist við í kvöld. Þetta er búið að vera hinsegin alla seríuna. Hlynur auðvitað frábær að taka fráköst,“ sagði Matthías og var þá að tala um Hlyn Bæringsson, leikmann Stjörnunnar, sem gat ekki spilað í kvöld eftir þungt höfuðhögg sem hann fékk í síðasta leik liðanna.

„Ég vil nefna það að það var ömurlegt að Hlynur Bæringsson hafi ekki getað spilað í kvöld. Það er ömurlegt að þurfa að vinna þegar hann er ekki inn á vellinum,“ sagði Matthías og hélt áfram.

„Við vonum innilega að þetta sé ekki alvarlegt því þetta er frábær karakter. Landsliðsfyrirliði og leikmaður sem allir elska. Það dregur smá úr sigrinum að vinna án hans. “

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira