Erlent

Allt í járnum í Pennsylvaníu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kjósendur á leið á kjörstað í Pennsylvaníu.
Kjósendur á leið á kjörstað í Pennsylvaníu. Vísir/EPA

Það gæti vart verið mjórra á munum í Pennsylvaníu þar sem Demókratar og Repúblikanar hafa tekist á í sérstökum kosningum um laust sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Þegar búið er að telja öll kjörfundaratkvæðin virðist Demókratinn Conor Lamb hafa hlotið um 49,8% atkvæða. Repúblikaninn Rick Saccone fylgir þó fast á hæla hans með 49,6%. Einungis nokkur hundruð atkvæðum munar á frambjóðendunum þegar talning á utankjörfundaratkvæðum er að hefjast. Frjálshyggjumaðurinn Drew Miller hlaut rúmlega 1300 atkvæði í nótt og gætu þau hafa ráðið úrslitum.

Þrátt fyrir að lokaniðurstaðan sé ekki enn komin í hús fagnaði Lamb sigri í gærkvöldi. „Þetta tók aðeins lengri tíma en við bjuggumst við en okkur tókst það. Ykkur tókst það,“ sagði hann á fundi með stuðningsmönnum sínum í nótt.

Saccone hefur þó ekki lagt árar í bát og segist ætla að bíða eftir lokatölum.

Mikil spenna ríkti fyrir þessum tilteknu kosningum en þær voru sagðar geta gefið forsmekkinn fyrir þingkosningarnar sem fram fara í landinu í haust. Kosningarnar í Pennsylvaníu, nánar tiltekið í 18. kjördæmi ríkisins, fóru hins vegar fram í gær vegna þess að þingmaðurinn kjördæmisins, Tim Murphy, sagði af sér í október síðastliðnum.

Kjördæmið hefur lengi verið vígi Repúblikana og yrði það því töluvert áfall fyrir flokkinn, og ekki síst forsetann Donald Trump, fari það svo að Lamb standi uppi sem sigurvegari. Trump flaug persónulega tvisvar til Pennsylvaníu til tala máli Repúblikanans Soccone og hefur flokkurinn varið milljónum dala í að verja þingsætið. Þá hefur varaforsetinn og fjölskylda hans jafnframt sótt kjördæmið heim.

Fari svo að Demókratar sigri mun það gefa þeim töluverðan vind í seglinn fyrir átökin í nóvember.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.