Erlent

Plastagnir finnast í vatni á flöskum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vatn frá vatnsrisanum Evian var meðal annars rannsakað.
Vatn frá vatnsrisanum Evian var meðal annars rannsakað. vísir/getty
Tilraunir sem gerðar voru á drykkjarvatni frá ellefu stórum vörumerkjum sem selja vatn á flöskum sýna að örsmáar plastagnir var að finna í vatninu í nær öllum tilfellum.

Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar til þessa en áður hefur verið fjallað um plastagnir sem finna má í kranavatni víða um heim, til dæmis á Íslandi.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hyggst rannsaka nánar hvaða áhrif plastagnir í drykkjarvatni geta haft á heilsu fólks.

Sjá einnig:Plastagnir að finna í kranavatni víða um heim

Í frétt BBC um málið kemur fram að vatn úr 250 flöskum frá níu löndum hafi verið rannsakað en rannsóknin var leidd af blaðamannasamtökunum Orb Media.

Að meðaltali ein plastögn í hverjum tíu lítrum af vatni

Að meðaltali fannst ein plastögn í hverjum tíu lítrum af vatni og var hver ögn stærri að breidd en eitt mannshár. Tilraunirnar í rannsókninni voru gerðar af State University of New York í Fredonia.

„Við fundum plast í hverri flöskunni á fætur annarri og frá hverju vörumerkinu á fætur öðru. Þetta snýst ekki um að benda á tiltekin vörumerki heldur snýst þetta um að sýna að plast er alls staðar. Plast er efni sem gegnsýrir allt okkar samfélag, það er að gegnsýra vatnið okkar, og allar þessar vörur sem við notum dags daglega,“ segir Sherri Mason, prófessor í efnafræði við State University of New York, sem gerði tilraunirnar.

Engar sannanir eru fyrir því að plastagnir geti haft skaðleg áhrif á heilsu fólks en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vill kanna það betur. Vill stofnunin aðallega reyna að svara þeirri spurningu hvort að það að borða eða drekka plastagnir óbeint yfir alla ævina geti haft áhrif á heilsuna.



Vatn frá Evian, Dasani og San Pellegrino rannsakað

Rannsóknin tók til eftirfarandi vörumerkja sem selja drykkjarvatn á flöskum: Aquafina, Dasani, Evian, Nestle Pure Life, San Pellegrino, Aqua (í Indónesíu), Bisleri (í Indlandi), Epura (í Mexíkó), Gerolsteiner (í Þýskalandi), Minalba (í Brasilíu) og Wahaha (í Kína). Fyrirtækin segja að í verksmiðjum þeirra sé fyllsta öryggis gætt þegar vatninu er tappað á flöskurnar.

Nánar má lesa um málið á vef BBC, annars vegar hér og hins vegar hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×