Erlent

Móðir dæmd í fangelsi fyrir að giftast dóttur sinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Patricia Ann Spann og dóttir hennar Misty Velvet Dawn Spann.
Patricia Ann Spann og dóttir hennar Misty Velvet Dawn Spann. Stephens County Jail.
Bandarísk móðir sem giftist dóttur sinni hefur verið dæmd til tveggja ára fangelsisvistar.

Móðirin heitir Patricia Ann Spann, 45 ára, en hún gekkst við ásökunum um sifjaspell og að hafa gifst 26 ára gamalli dóttur sinni sem heitir Misty Velvet Dawn Spann.

Patricia hafði áður misst forræði yfir börnum sínum en komst aftur í samband við dóttur sína Misty árið 2014. Sagði Patricia að þær mæðgur hefðu náð einstaklega vel saman.

Þær gengu í hjónaband í mars árið 2016 eftir að hjónabönd samkynhneigðra voru gerð lögleg í Oklahoma-ríki sama ár.

Við rannsókn málsins kom í ljós að Patricia Ann Spann hafði áður gifst syni sínum.

Sonur hennar var átján ára gamall þegar hann gekk að eiga móður sína árið 2008. Hann lét ógilda hjónabandið árið 2010 vegna ásakana um sifjaspell.

Upp komst um mál mæðgnanna þegar félagsráðgjafar voru við hefðbundið barnaverndareftirlit.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir dótturina Misty Ann hafa látið ógilda hjónabandið í október í fyrra með þeim rökum að hún hefði verið beitt blekkingum.

Hún sagði móður sína hafa logið því þegar hún fullyrti að hafa borið hjónabandið undir þrjá lögfræðinga sem sáu ekkert að því.

Patricia Ann Spann bar því við að hún hefði trúað því að hjónaband þeirra væri löglegt þar sem hún hefði ekki verið skráð sem líffræðileg móðir Misty Ann á fæðingarvottorði hennar og hefði ekki verið í samskiptum við dótturina stóran hluta lífs hennar.

Misty Ann gekkst við ásökunum um sifjaspell í nóvember síðastliðnum og var dæmd til tíu ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar ásamt því að vera skikkuð til að leita ráðgjafar.

Patricia Ann verður átta ár á skilorði eftir að hún losnar úr fangelsi og þarf að skrá sig sem kynferðisafbrotamann.

BBC tekur fram að samkvæmt lögum Oklahoma-ríkis telst það sifjaspell ef náskyldir ættingjar ganga í hjónaband og skiptir þá engu hvort þeir höfðu samræði eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×