Erlent

Enn ekki ljóst hversu margir létust

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðbragðsaðilar njóta aðstoðar leitarhunda við björgunaraðgerðir á slysstað.
Viðbragðsaðilar njóta aðstoðar leitarhunda við björgunaraðgerðir á slysstað. Vísir/AFP
Enn hefur ekki fengist staðfest hversu margir létust þegar göngubrú hrundi í Miami í Flórída-ríki í Bandaríkjunum um klukkan 13:30 að staðartíma, eða um 17:30 að íslenskum tíma, í dag. Ljóst þykir að um nokkur dauðsföll er að ræða en viðbragðsaðilar vinna enn björgunarstarf á vettvangi.

Fréttastofa CNN hefur eftir yfirvöldum á svæðinu að a.m.k. einn sé látinn. Þá tjáði öldungardeildarþingmaðurinn Bill Nelson blaðamönnum að tala látinna væri á bilinu 6-10, að því er fram kemur í frétt BBC. Yfirvöldum og viðbragðsaðilum kemur þó saman um að nokkrir hafi látist.

Þá hafa tíu verið fluttir á Kendall Regional-sjúkrahússið í grennd við slysstað, að sögn Marks McKenney, forstöðumanns sjúkrahússins, og eru tvö þeirra í lífshættu. Þá er talið að fleiri slasaðir hafi verið fluttir á önnur sjúkrahús í nágrenninu.

Slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar halda áfram björgunarstarfi á vettvangi fram eftir kvöldi en ekki er vitað hvort fólk sé enn fast undir rústunum. Samkvæmt frétt BBC voru a.m.k. átta bifreiðar undir brúnni þegar hún hrundi.

Þá virðast einhverjir iðnaðarmenn hafa verið við störf á brúnni þegar hún hrundi, að því er fram kemur í frétt ABC-fréttastofunnar, en ekki hefur fengist staðfest hversu margir þeir voru.

Fjölmiðlar ytra hafa margið rætt við vitni að hamförunum en þau segja öll aðstæður hafa verið hryllilegar á vettvangi.

„Ég heyrði gríðarlegan hvell, mér heyrðist hann vera stöðugur. Við horfðum út, við héldum að eitthvað hefði dottið en þá var það brúin sem hrundi. Þetta var óraunverulegt og mjög óhugnanlegt,“ sagði eitt vitnanna, Damany Reed, í samtali við CBS-fréttastofuna.

Frá vettvangi í Miami í dag.Vísir/AFP
Göngubrúin, sem vegur um 950 tonn, liggur yfir mikla umferðargötu og tengir saman háskólabyggingu Alþjóðaháskólans í Flórída og íbúðir nemenda. Hún var nýreist, raunar hafði hún aðeins staðið síðan á laugardag, og ekki stóð til að klára byggingu hennar fyrr en árið 2019.

Þá hefur komið fram að nemendur og kennarar við Alþjóðaháskólann hafi ítrekað beðið um að brúin yrði byggð svo auðveldara væri fyrir þá að komast á milli bygginga. Árið 2017 varð nemandi við skólann fyrir bíl á leið sinni yfir hraðbrautina og lést.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×