Erlent

Fyrrverandi forseti Suður-Afríku þarf að svara fyrir sakir um spillingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Zuma lét af embætti í febrúar eftir níu ár á valdastóli.
Zuma lét af embætti í febrúar eftir níu ár á valdastóli. Vísir/AFP
Saksóknarar í Suður-Afríku tilkynntu í dag að þeir hefðu tekið aftur upp ákærur um spillingu gegn Jacob Zuma, fyrrverandi forseta landsins. Málið tengist vopnasölusamningi frá 10. áratugnum en Zuma var meðal annars gefið að sök að hafa þegið mútur frá hernaðarverktökum.

Ákæran var upphaflega gefin út árið 2007 en Zuma notaði meðal annars áhrif sín sem forseti til að forðast saksókn, að því er segir í frétt New York Times. Hún er í átján liðum sem varða meðal annars spillingu, fjársvik og fjárplógsstarfsemi.

Zuma sagði af sér sem forseti í síðasta mánuði en þá lá fyrir níunda vantrauststillagana á hendur honum í suður-afríska þinginu.

Upphaf ásakananna má rekja til tveggja og hálfs milljarðar dollara vopnakaupasamnings ríkisstjórnarinnar seint á 10. áratugnum áður en Zuma varð forseti, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Zuma var hins vegar varaforseti og leiðtogi stjórnarflokksins Afríska þjóðarráðsins (ANC) á þeim tíma.

Zuma hefur alla tíð hafnað ásökunum um að hafa tekið við mútum frá fyrirtækjum sem tóku þátt í útboðinu. Sagði hann þær runnar undan rifjum pólitískra andstæðinga. Spillingarásakanirnar blönduðust á sínum tíma inn í valdabaráttu hans og Thabo Mbeki, þáverandi forseta landsins.


Tengdar fréttir

Zuma sagði af sér í skugga vantrausts

Jakcob Zuma, forseti Suður-Afríku, sagði af sér í gærkvöld. Atkvæðagreiðsla um vantrauststillögu var yfirvofandi í dag. Líklegt að leiðtogi Afríska þjóðarráðsins taki við af Zuma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×