Skoðun

Auðlindin okkar

Oddný Harðardóttir skrifar
Stjórnarflokkarnir ætla að lækka veiðigjöldin og segja að smærri útgerðir ráði ekki við þau. Hærri veiðigjöld á yfirstandandi fiskveiðiári eru til komin vegna afar góðrar afkomu útgerðarfyrirtækjanna fyrir tveimur fiskveiðiárum. Það er vissulega galli að útreikningur veiðigjalda skuli miðast við tveggja ára gögn en það á ekki að koma útgerðarmönnum á óvart sem ekki sáu ástæðu til að kvarta undan of lágum veiðigjöldum fyrir tveimur árum.

Formaður atvinnuveganefndar hefur sérstaklega kallað eftir því að þjóðin gefi enn afslátt af veiðigjöldunum vegna þess að sveitarfélögunum út um land standi af þeim ógn, því útgerðir gætu hætt vegna þeirra. Nú mætti spyrja þingmann Vg og formann atvinnuveganefndar hvort hún telji að HB Grandi hafi flutt sig frá Akranesi vegna þess að veiðigjöldin voru of há? Eða stendur sveitarfélögunum ekki frekar ógn af því að útgerðir selja kvóta dýru verði og fara? Og ef áhyggjurnar eru af smærri útgerðum, vill hún þá ekki breyta útreikningi á veiðigjöldum þannig að þau fari stighækkandi eftir stærð útgerða? Slíkt vinnur gegn samþjöppun og tekur tillit til sérstöðu smærri útgerða.

Þjóðin á rétt á því að fá sanngjarnan arð af auðlind sinni og stjórnmálamenn eiga ekki að hlaupa til og lækka hlut þjóðarinnar um leið og útgerðin kvartar.

Afar líklegt er að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næstu fiskveiðiár því þorskkvótinn hefur aldrei mælst stærri. Hann hefur nærri tvöfaldast síðustu 10 fiskveiðiár, farið úr 130 þúsund tonnum í 258 þúsund tonn og á síðustu þremur árum aukist um 40 þúsund tonn.

Almenningur hlýtur að krefja stjórnvöld svara við því hvers vegna þau vilja frekar lækka veiðigjöldin og færa útgerðinni viðbótarkvóta á spottprís, heldur en að fá fyrir hann markaðsverð og láta tekjurnar renna til þjóðþrifamála.

Framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarkerfisins verður til umræðu á landsfundi Samfylkingarinnar í málefnanefnd um atvinnumál.

Höfundur er alþingismaður




Skoðun

Sjá meira


×