Skoðun

Í­þróttir fyrir öll, jöfnum og bætum leikinn

Hólmfríður Sigþórsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir skrifa

Hér á landi er þátttaka barna í íþróttastarfi mikil þó vissulega sé erfitt að ná til ákveðinna þjóðfélagshópa. Frístundastyrkir skipta miklu máli og auka tækifæri þó að þeir dekki ekki nándar nærri allan kostnað við íþróttaþátttöku barna. Íþróttaþátttaka er bæði mikilvæg dægradvöl sem og mikilvægt lýðheilsumál.

Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi er forvarnarmál sem hefur skilað miklum árangri síðustu áratugi. Íþróttastarfi er forvarnarmál sem þarf að hlúa að þannig að það þróist með breyttu samfélagi og snúist ekki upp í andhverfu sína. Passa þarf að íþróttastarf stuðli að jafnrétti og börn hafi sömu tækifæri til að eflast og dafna innan íþróttahreyfingarinnar. Vissulega má deila um jafnrétti barna til íþróttaiðkunar, hvaða íþróttir bjóðast hverju barni til dæmis í dreifðum byggðum landsins þar sem framboð ræðst af áhuga og getur þeirra fullorðnu sem samfélagið byggja.

Þegar ungmenni hefja nám í framhaldsskólum minnkar þátttaka í íþróttum, oft á tíðum bjóða íþróttafélög ekki upp á þátttöku fyrir þau sem vilja æfa áfram en stefna ekki á afreksíþróttir.

Fyrir þau sem vildu velja að æfa áfram íþróttir er mikilvægt að fá tækifæri, upp á eigin lýðheilsu og til þess að tilheyra. Það er ekki ólíklegt að þessir einstaklingar verði þau sem hlúði að íþróttafélögum framtíðarinnar, þau verða dómarar, stjórnarfólk og aðrir sjálfboðaliðar. Hér eru tækifæri fyrir tengsl milli heilsueflandi skóla landsins til að styðja íþróttafélögin og ungmenni til þátttöku.

Fyrir þau sem stefna á afreksíþróttir hafa nú í mörgum tilfellum tækifæri til að stunda íþrótt sína samhliða námi þar sem fjölmargir framhaldsskólar bjóða upp á íþróttaafreksbrautir. Frekari tækifæri eru með samstarfi við ólympíunefndir.

Þrátt fyrir hlutfallslega mikla íþróttaþátttöku á Íslandi og tíðrætt gott gengi fámennrar þjóðar er líka kallað eftir fleiri verðlaunahöfum á ólympíuleikunum. Tilvalið væri að byggja tengsl milli ólympíuleikanefndar Íslands og afreksíþróttabrauta framhaldsskólana sem mætti bæta við tillögur að afreksstarfi og tryggja tengsl við stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands. Þó að íþróttaafreksbrautir séu í flestum tilfellum í samstarfi við íþróttafélögin, mætti styrkja þær enn frekar með tengslum við ólympíunefnd og þjálfara með enn háleiddari markmið.

Í dag er aðstöðumunur mikill á milli íþróttagreina, í sumum tilfellum fá landsliðs börn töskur með öllu sem þarf og greitt er fyrir ferðir en í öðrum tilfellum þurfa þau að safna sjálf fyrir þátttöku, kostnaður er hér bæði mjög breytilegur eftir búsetu landsliðs barna og á milli íþróttagreina. Þetta er ójafnleikur sem heillavænlegt væri að jafna.

Hólmfríður er líffræðikennari, umhverfis- og auðlindafræðingur og flokkráðsfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Anna er þjóðgarðsvörður og flokkráðsfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×