Skoðun

Fjár­munum veitt þangað sem neyðin er mest

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Þessa dagana ferðumst við, tveir fulltrúar frá utanríkismálanefnd Alþingis, um Síerra Leóne þar sem við kynnum okkur þróunarstarf Íslands í landinu. Ísland og Síerra Leóne hafa verið í samstarfi um þróunarsamvinnu frá árinu 2018 og í vikunni opnar þar formlega sendiskrifstofa til að halda utan um þróunarsamvinnuna. Undanfarna áratugi hafa Íslendingar verið í tvíhliða þróunarsamvinnu í Malaví og Úganda. Þar leggjum við áherslu á heilbrigðisþjónustu, menntun, vatnsöflun og hreinlætismál. Mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál eru síðan lögð til grundvallar í allri þróunarsamvinnu Íslands.

Í Síerra Leóne hefur markmiðið verið að styðja við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og auka lífsgæði í fiskveiðisamfélögum. Það eru verkefni sem Íslendingar þekkja vel og því tilvalið að útvíkka samstarfið við landið, enda þykir það henta vel fyrir áherslur og sérþekkingu Íslands í þróunarsamvinnu. Síerra Leóne er eitt fátækasta ríki heims, en þjóðin hefur glímt við hvert áfallið á fætur öðru, styrjaldir og plágur. Verkefnin eru aðkallandi. Eitt þeirra er gríðarlega hátt hlutfall kvenna í Síerra Leóne sem hafa verið beittar grimmilegu ofbeldi með limlestingu á kynfærum. Limlestingin felst í því að hluti af eða öll ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð. Stjórnvöld í Síerra Leóne eru mjög treg til að uppræta kynfæralimlestingu kvenna, en íslensk stjórnvöld hafa undirbúið sérstakt samstarfsverkefni sem snýr að baráttunni gegn þessum alvarlegu mannréttindabrotum.

Ísland er ríkt land í alþjóðlegum samanburði og vel í stakk búið til þess að láta gott af sér leiða. Ég tel að við eigum að uppfylla skyldur okkar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og leggja okkar af mörkum í þróunarsamvinnu við fátækari ríki heims. Með því veitum við fjármunum þangað sem neyðin er mest. Rökin fyrir því eru því siðferðislegs eðlis, en auk þess er það auðvitað mikilvægt öryggismál.

Þótt Ísland sé smáríki, er landið ríkt og framlög Íslands til þróunarsamvinnu eru því ekki hlutfallslega há í samanburði við önnur ríki. Ég tel að það sé mikilvægt að við leggjum áherslu á að nýta sem best sérþekkingu Íslands í þróunarsamvinnu og þannig margfaldast virði framlags okkar. Það er jákvætt að það sé haft að leiðarljósi í auknu samstarfi við Síerra Leóne.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×