Skoðun

Öll með? – 4.020 kr. hækkun fyrir skatt eftir 16 mánuði!

Unnur Helga Óttarsdóttir skrifar

Nú stendur yfir umfangsmikil endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu enda löngu tímabært. Landssamtökin Þroskahjálp taka heilshugar undir mikilvægi þess að kerfið verði einfaldað og gert notendavænna fyrir fatlað fólk. Ekki síst er varðar endurhæfingarlífeyri sem hentar mjög illa okkar fólki, þ.e.a.s. fólki með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk, sem oft á tíðum þarf nú að skila reglulega inn endurhæfingaráætlun vegna fötlunar sinnar þó að mjög óljóst sé til hvers endurhæfing á að ná og hvað ætti að endurhæfa.

Í nýlegri kynningu félags- og vinnumarkaðsráðherra undir yfirskriftinni ,,Öll með‘‘ fór ráðherrann yfir fyrirhugaðar breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem hefur verið kallað eftir í langan tíma. Þar kemur fram að grunnhugsunin sé sú að við séum öll með og skiptum öll máli. Talar ráðherra um að það sé verið að umbylta kerfinu og að koma eigi fötluðu fólki úr fátæktargildrunni. Mikil áhersla í nýja kerfinu er að draga úr hindrunum og aðstoða fólk sem vill og getur stundað atvinnu – en ekki síður að halda utan um þau sem ekki taka þátt á vinnumarkaði.

En er það svo?

Verði frumvarpið að lögum óbreytt mun sá hópur sem hlaut fyrsta örorkumat við 18 ára aldur og býr einn – sem er algeng staða meðal fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir – hækka um 4.020 kr. á mánuði, fyrir skatt. Og það sem meira er, þessi líka rausnarlega kjarabót tekur ekki gildi fyrr en eftir 16 mánuði!

Það er því ekki að sjá að verið að koma til móts við þann hóp sem minnst hafa og hafa engin tækifæri til að bæta kjör sín á vinnumarkaðinum. Þetta er í litlu samræmi við greinagerð frumvarpsins þar sem tekið er sérstaklega fram að litið sé til þessa sem minnst hafa og að kjör þeirra sem einungis fá greiðslur frá Tryggingastofnun batni mest með nýja kerfinu, en samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu má ætla að 63% af fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir hafa engar aðrar tekjur en greiðslur frá TR (tölur frá 2019).

Hér að neðan er hægt að skoða þær breytingar sem fyrirhugaðar eru eftir 16 mánuði.

Fólk sem reiðir sig á örorkulífeyri sem sínar einu tekjur hefur því miður engan samningsrétt um kjör sín og getur ekki knúið fram kjarabætur með verkföllum.

Þessi hópur hefur setið eftir í launaþróun og verðbólguástandi síðustu ára, og gliðnar sífellt bilið á milli grunnörorkulífeyris og almennra launa í landinu.

Landssamtökin Þroskahjálp styður verkalýðshreyfinguna heilshugar í baráttu hennar fyrir bættum kjörum og réttlátara samfélagi. Nú á baráttudegi verkalýðsins og alla daga.

En fatlað fólk krefst þess að vera með í baráttunni fyrir betri lífskjörum.

Skiljum engan eftir!

Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×