Menning

Leika sónötur í rómantískum stíl og líka falleg sönglög Liszts

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Edda og Bryndís Halla tóku smá hlé frá spilamennskunni.
Edda og Bryndís Halla tóku smá hlé frá spilamennskunni. Vísir/anton

Sónötur og ljóðræn smálög munu hljóma í Kaldalóni, Hörpu á morgun, sunnudag. Á tónleikum sem hefjast klukkan 17 flytja þær Bryndís Halla Gylfadóttir og Edda Erlendsdóttir verk fyrir selló og píanó eftir Liszt, Bridge og Brahms.

Þegar ég hringi í Eddu segir hún þær akkúrat í þögn í miðri æfingu á einni af sónötu Bridge! Spurð hvort þær kunni þetta ekki allt svarar hún glaðlega: „Það er aldrei góðs viti að þykjast of öruggur en við erum búnar að vinna mjög vel síðan ég kom heim og vorum búnar að taka skorpu fyrr í vetur. Við erum samtaka í að vilja vinna svona verkefni á löngum tíma.

Edda segir tónlistina sem þær eru að æfa ótrúlega fallega. „Sónatan eftir Frank Bridge er samin 1919 í mjög rómantískum stíl og undir áhrifum frá Brahms og Rachmaninoff. Svo eru sönglög sem Liszt útsetti sjálfur fyrir píanó og selló. Þau eru ekkert oft flutt en hann skrifaði mörg falleg sönglög.“

En það er enginn að syngja með ykkur, eða hvað? „Nei, það er sellóið sem syngur og ég reyni að vera auðmjúkur meðleikari,“ segir Edda. „Svo er Brahms-sónata eftir hlé. Hún fær að standa alveg sér og ein.“

Edda hefur búið yfir 40 ár í París. Kennt við tónlistarháskólana í Lyon og Versölum og spilað mikið í Frakklandi og víðar í Evrópu. En nú kveðst hún tekin að flakka milli Íslands og meginlandsins. „Þegar ég fór á eftirlaun úti kom upp í hendur mínar spennandi starf sem gestakennari við Listaháskólann hér og svo fleiri verkefni í framhaldinu. Nú er ég að kenna masterklassnemendum í Tónlistarskóla Kópavogs og Nýja tónlistarskólanum, vinna með ungum söngvurum og við Bryndís Halla ætlum að halda þrenna tónleika úti á landi. Nú er vor hér en snjór og kuldi í París og maðurinn minn á leiðinni hingað.“ Tónleikarnir í Kaldalóni tilheyra tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.