Erlent

Sagði fast handaband fréttakonu koma í veg fyrir að hún fyndi sér eiginmann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Glaumgosinn Silvio Berlusconi er enn með puttana í ítölskum stjórnmálum á gamalsaldri jafnvel þó að hann sé ekki kjörgengur.
Glaumgosinn Silvio Berlusconi er enn með puttana í ítölskum stjórnmálum á gamalsaldri jafnvel þó að hann sé ekki kjörgengur. Vísir/AFP
Kosið er til beggja deilda ítalska þingsins í dag en skoðanakannanir benda til þess að enginn stjórnmálaflokkur nái hreinum meirihluta. Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra, er á meðal þeirra sem leiðir framboð til kosninga en hann hefur vakið mikla athygli fyrir ummæli sín í garð fréttakonu breska ríkisútvarpsins.

Samskipti Berlusconi og fréttakonunnar má sjá í meðfylgjandi myndbandi. Þegar fréttakonan tekur í hönd fyrrverandi forsætisráðherrans biður hann hana um að slaka á handabandinu.

„Ekki heilsa karlmönnum með svona föstu handabandi. Of sterk. Annars munu karlmenn halda, þessi ætlar að lemja mig, og enginn mun vilja giftast þér,“ segir Berlusconi.

Fréttakonan segist þá hafa haldið að traust handaband væri mikill mannkostur.

„Nei, aðeins minna. Hver mun vilja giftast þér?“ svarar Berlusconi að bragði en bætti þó við í lok samtalsins að hann hefði verið að grínast. „Þú verður stundum að geta tekið gríni.“

Fyrir fáeinum árum var útlitið svart fyrir Berlusconi á pólitísku sviði Ítalíu. Í dag er fyrrverandi forsætisráðherrann þó genginn aftur og hefur endurvakið sinn gamla flokk Forza Italia (Áfram Ítalía). Árið 2012 var Berlusconi dæmdur fyrir skattsvik og er ekki heimilt að gegna opinberu embætti til ársins 2019.

Flokkur hans vill þá ráðast í miklar breytingar á skattkerfinu og hefur lofað því að reka 600 þúsund ólöglega innflytjendur úr landi en hann hefur sagt að fjöldi flóttamanna í landinu sé „samfélagsleg tímasprengja“.

Ítarlega fréttaskýringu Vísis um ítölsku þingkosningarnar má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×