Erlent

Merkel lofar störfum og sterkri þýskri rödd innan ESB

Kjartan Kjartansson skrifar
Þetta verður fjórða kjörtímabil Angelu Merkel sem kanslari Þýskalands.
Þetta verður fjórða kjörtímabil Angelu Merkel sem kanslari Þýskalands. Vísir/AFP
Ný ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ætlar að einbeita sér að því að tryggja störf og hagsæld. Merkel segist einnig ætla að beita sér fyrir því að rödd Þjóðverja verði áfram sterk innan Evrópusambandsins.

Nærri því hálft ár er liðið frá þingkosningunum í Þýskalandi en aldrei hefur tekið svo langan tíma að mynda ríkisstjórn í landinu á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Sósíaldemókratar, samstarfsflokkur Kristilegra demókrata Merkel, samþykktu með nokkrum semingi að endurnýja samstarfið í gær.

Þetta verður fjórða ráðuneytið Merkel en hún þykir koma löskuð út úr kosningunum og þrátefli síðustu mánaða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hún gerði misheppnaða tilraun til að mynda ríkisstjórn með Græningjum og Frjálsum demókrötum áður en hún leitaði aftur í faðm fyrrverandi félaganna í Sósíaldemókrataflokknum.

Samstarfsflokkurinn fær stól fjármálaráðherra og sex og fimm önnur ráðuneyti. Töluverð andstaða var þó innan raða sósíaldemókrata við áframhaldandi stjórnarsamstarf. Flokkurinn fékk sína verstu útreið í sögunni í kosningunum í september. Kenna margir flokksmenn samstarfinu við flokk Merkel um hvernig fór.

Áskoranir í Evrópu

Merkel sagði í dag að tími væri kominn fyrir aðgerðir.

„Við sjáum að Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum og að sterk rödd Þýskalands ásamt Frakklandi og öðrum aðildarríkjum er nauðsynleg,“ sagði kanslarinn og vísaði meðal annars til átakanna í Sýrlandi og viðskipta í heiminum.

Búist er við því að þýska þingið samþykki kjör Merkel sem kanslara 14. mars.


Tengdar fréttir

Samþykkja samsteypustjórn með Merkel

Þýski jafnaðarmannaflokkurinn SPD hefur samþykkt samsteypustjórn með Kristilegum demókrötum, flokki kanslarans Angelu Merkel. Fimm mánaða stjórnarkreppu í Þýskalandi er því lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×