Handbolti

Guðmundur vildi að hann hefði hætt fyrr með Dani

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðmundur stýrði Barein síðast.
Guðmundur stýrði Barein síðast. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var í opinskáu viðtali hjá danska miðlinum BT þar sem hann sagðist meðal annars óska þess að hafa hætt fyrr með danska landsliðið.

Guðmundur, sem tók við íslenska liðinu í þriðja skipti á felrlinum fyrr á árinu, stýrði danska landsliðinu á árunum 2014-17 og gerði þá að Ólympíumeisturum árið 2016. Hann hætti hjá sambandinu sumarið 2017 og hefur síðan þá lýst deilum sem hann átti í við Ulrik Wilbek og tilraunir þess síðarnefnda til þess að láta reka Guðmund úr starfi.

„Þetta var öðruvísi í Danmörku. Þegar ég var á Íslandi og í Þýskalandi þá treysti fólk mér og bar virðingu fyrir mér, sem er mikilvægt fyrir þjálfara,“ sagði Guðmundur í viðtalinu.

„Það má segja að ég hafi verið í bakkgír frá fyrsta degi í Danmörku. Það var stöðugur mótvindur og ég var farinn að efast um allar mínar ákvarðanir, sem var erfitt að upplifa.“

„Það var erfitt að koma inn í þetta starf sem útlendingur því flestir bjuggust við Dana í starfið. Þessi tími var erfiður fyrir mig.“

Eftir að hafa stýrt danska liðinu til Ólympíugulls bjóst Guðmundur við því að fá endurnýjun á samningi sínum, sem var til júlí 2017. Hann sagðist hins vegar hafa séð strax að danska sambandið hafði ekki áhuga á því og hann gaf það út í nóvember 2016 að hann ætlaði ekki að halda áfram eftir að samningur hans rynni út.

Í millitíðinnni stýrði Guðmundur danska liðinu á HM í Frakklandi í janúar 2017.

„Andrúmsloftið var erfitt eftir það sem gerðist eftir Ólympíuleikana. Það var mikið um meiðsli og leikmenn voru ekki í sínu besta formi. Leikmennina vantaði hungrið.“

Er blaðamaðurinn spurði Guðmund hvort hann liti til baka og óskaði þess að hafa hætt fyrir HM. Fyrst svaraði Guðmundur ekki hreint út en knúinn svari sagði hann: „Já, ég held ég óski þess.“

„En markmið mitt á þeim tíma var að verða heimsmeistari og við áttum möguleika á því. Ég var enn samningsbundinn og ég er þannig karakter að ég klára mína samninga. Ég ætlaði að vinna heimsmeistaratitilinn og hætta þá.“

Spurður út í það hvort hann sé sár yfir því hvernig hlutirnir enduðu sagði Guðmundur að hann einbeitti sér að hinu jákvæða. Aðspurður hvað hann hugsi um Ulrik Wilbek og forráðamenn danska sambandsins sagði Guðmundur: „Ekkert.“

„Ég hef ekki heyrt frá Ulrik síðan á Ólympíuleikunum. Og ekki talað við Per Bertelsen [formann danska sambandsins] heldur. Það er skrítið en þú verður að spurja þá hvers vegna,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir

Wilbek: Glaður að fara ekki á HM með Guðmundi

Ulrik Wilbek, fyrrum þjálfari danska handboltalandsliðsins, segir að hann hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann hætti sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins.

Wilbek snýr aftur í handboltann

Ulrik Wilbek hefur ekki starfað í kringum handboltann síðan hann hætti eftir Ólympíufarsann í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×