Erlent

Hin­rik prins jarð­sunginn í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hinrik lést í síðustu viku, 83 ára gamall.
Hinrik lést í síðustu viku, 83 ára gamall. Vísir/EPA

Útför Hinriks prins fer fram í dag frá kirkju Kristjánsborgarhallar. Lík Hinriks verður brennt og verður helmingi öskunnar dreift í dönskum vötnum og hinum helmingnum komið fyrir í einkagarði konungsfjölskyldunnar við Fredensborgarhöll.



Athöfnin hefst klukkan 11 að dönskum tíma. Tíu liðsmenn konunglegu lífvarðasveitarinnar munu bera kistu Hinriks og þrír kórar munu syngja við athöfnina. Að útförinni lokinni verður sérstök athöfn í Amalíuborg fyrir nánustu ættingja og vini dönsku konungsfjölskyldunnar.



Hinrik Prins lést þann 13. febrúar síðastliðinn, 83 ára að aldri. Margrét Þórhildur, Danadrottning og eiginkona Hinriks, var hjá honum þegar hann lést ásamt sonum þeirra, Friðriki krónprins og Jóakim prins. 



Fjölmargir hafa lagt blóm við konungshallirnar í Danmörku síðan Hinrik lést. Öll þau blóm sem fólk hefur lagt í minningu hans verða færð að minnisvarða um hermenn sem fallið hafa í stríði.



Síðasta sumar greindi prinsinn frá því að hann vildi ekki hvíla við hlið eiginkonu sinnar í dómkirkjunni í Hróarskeldu að þeim gengnum líkt og gert hafði verið ráð fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×