Körfubolti

Kári missir ekki bara af landsleikjunum heldur næstu leikjum Hauka líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson skrifar hér undir saminginn með vinstri en hann er örvhentur. Brotið er því ekki á skothendinni.
Kári Jónsson skrifar hér undir saminginn með vinstri en hann er örvhentur. Brotið er því ekki á skothendinni. Vísir/Anton
Kári Jónsson verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum á móti Tékklandi og Finnlandi og hann missir líka af síðustu þremur umferðunum í Domino´s deildinni.

Landsliðshléið hefur mikil áhrif á Haukaliðið þar sem liðið missir nú algjöran lykilmann fyrir lokabaráttuna um deildarmeistaratitilinn. Kári Jónsson fingurbrotnaði á landsliðsæfingu. Brotið er í þumalfingrinum á hægri hendi.

„Það er ennþá verið að skoða þetta aðeins betur en ég gæti verið frá keppni í um fjórar vikur. Það þýðir að ég missi af þremur síðustu leikjunum í deildinni en stefnan er að reyna að ná fyrsta leiknum í úrslitakeppninni,“ sagði Kári við mbl.is.

Haukar eru með tveggja stiga forskot þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni en liðið á eftir að mæta Stjörnunni (7. sæti), ÍR (2. sæti) og Val (10. sæti).

Kári Jónsson er með 19,8 stig og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik en hann í 8. sæti í stigaskori, 5. sæti í stoðsendingum og í 10. sæti framlagi. Haukar hafa unnið 14 af 17 leikjum síðan að hann kom frá Bandaríkjunum.  

Meiðsli Kára rifja upp slæmar minningar fyrir Hauka en Kári meiddist í tvígang í úrslitakeppninni 2016 þegar Haukar voru með frábært lið og fóru alla leið í lokaúrslitin á móti KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×