Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 37-29 | FH skellt í Eyjum

Einar Kristinn Kárason skrifar
Sigurbergur Sveinsson
Sigurbergur Sveinsson Vísir/Anton
Í kvöld tóku ÍBV á móti FH í toppslag Olís deildar karla í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Fyrir leik sátu Eyjamenn í 3.sæti deildarinnar á meðan lið FH er á toppnum.

Leikurinn fór fjöruglega af stað en fyrstu 10 mínútur leiksins voru jafnar. Þar eftir tók heimaliðið fljótlega forustu og einfaldlega lét hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Gestirnir úr Hafnarfirðinum voru í tómu veseni með Stephen Nielsen í markinu sem og vörn ÍBV sem stóð vaktina af mikilli prýði.  Í hálfleik leiddu ÍBV með 7 mörkum.

FH byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og tóku 0-4 kafla á fyrstu 5 mínútunum. Þá vöknuðu Eyjamenn til lífsins og tóku við sér á ný. ÍBV héldu gestunum töluvert frá sér það sem eftir lifði leiks og svo fór að leikar enduðu 37-29 fyrir heimaliðinu.

 

Hvers vegna vann ÍBV?

Stephen Nielsen var góður í markinu sem og vörn Eyjaliðsins, sem gaf fá færi á sér. FH voru að missa menn af velli trekk í trekk og spiluðu með engan markmann í markinu í þeim sóknum sem þeir voru með mann í pásu og var þeim ítrekað refsað fyrir tapaða bolta.

 

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur gestanna var arfaslakur og keyrðu Eyjamenn yfir þá. 7 marka munur í hálfleik og skaðinn eiginlega skeður. Reyndu að klóra sig til baka í byrjun síðari en hraustir Eyjamenn tóku það ekki í mál og héldu uppteknum hætti.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Stephen Nielsen klukkaði 16 bolta í markinu og var afar drjúgur. Theódór Sigurbjörnsson var markahæstur ÍBV með 9 mörk en Óðinn Þór Ríkharðsson og Ágúst Birgisson fóru fyrir liði gestana með 8 og 6 mörk.

 

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fá Selfyssinga í heimsókn í hörkuleik á miðvikudagskvöld og FHingar etja kappi við ÍR úr Breiðholtinu fimmtudaginn 1.mars.

 

Halldór Jóhann: Veit ekki hvað við erum með marga tapaða bolta

„Það er kannski margt sem maður getur sagt eftir svona leik þegar maður er búinn að sjá vídeóin en í fljótu bragði vorum við góðir í korter, fyrsta korterið í seinni. Vorum þá góðir varnarlega og refsuðum þeim,” sagði Halldór Jóhann, þjálfari FH eftir tap gegn ÍBV.

„Fyrri hálfleikurinn var dapur. Seinustu 10 mínúturnar líka. Ég er mjög ósáttur með hvernig menn komu inn í leikinn. Vonbrigði í raun og veru.”

Spurður að því hvað hefði klikkað svaraði Halldór: „Það eru ansi margir hlutir sem klikkuðu hjá okkur. Við spilum bara ekki vörn, erum lengi að koma okkur til baka, erum að taka lélegar ákvarðanir seinni hluta fyrri hálfleiks. Fyrri hluta hálfleiksins erum við að spila okkur í færi. Hvort við værum svona hræddir við að gera mistök að við gerðum ennþá verri mistök í raun og veru. Ég veit ekki hvað við vorum með marga tapaða bolta.”

„Heilt yfir er þetta mjög lélegt í raun og veru. Við erum að tapa hérna með 8 mörkum. Erum að fá á okkur 37-38 mörk sem er mjög ólíkt okkur.”

„Það er mánudagur í dag, þriðjudagur á morgun og leikur á fimmtudaginn þannig að við byrjum bara á því að ferðast heim á morgun og svo þurfum við bara að skoða okkar mál aðeins. Við áttum mjög dapran dag hér í dag og óþarft að tapa með 8 mörkum hérna á móti ÍBV þar sem við hefðum alveg getað komið hérna og átt góðan leik og tapað kannski í hörkuleik en að tapa svona illa og gefast eiginlega svolítið upp er ég ekki ánægður með og ég held að strákarnir séu síður en svo ánægðir með það líka,” sagði Halldór að lokum.”

 

Arnar: Fannst við betri en Valsararnir

„Svona langleiðina já,” sagði Arnar Pétursson um hvort allt hefði gengið upp í kvöld. „Mjög góð spilamennska og flottur leikur heilt yfir. Smá kafli þarna í byrjun seinni hálfleiks þar sem við náttúrulega mættum ekki og þeir gera 4 mörk á okkur. Svo er ég alveg brjálaður yfir þessu rauða spjaldi þarna í lokin .. en annars er ég mjög glaður!”

Eyjamenn leiddu í hálfleik með 7 mörkum. Var þetta komið? „Nei, það er það ekki. Við fórum með svipaða stöðu inn í Kaplakrika og úr varð hörkuleikur. Við vissum alveg að þetta væri ekkert komið. Við vorum hérna líka á móti Val um daginn að spila glimrandi bolta í fyrri hálfleik og svo ekki eins góðan í seinni hálfleik svo við vissum alveg að þetta væri ekkert komið.”

„Frábær varnarleikur, góð markvarsla og heilt yfir bara ljómandi fínn sóknarleikur (skóp þennan sigur). Auðvitað er þetta ennþá mikilvægara eftir tapið á móti Val en við skoðuðum þann leik og vorum alveg sammála um það að það vorum við sem að töpuðum þeim leik. Mér fannst við eiginlega vera betri en Valsararnir.”

Framundan eiga Eyjamenn Selfyssinga í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn. „Við höldum bara sama dampi. Það er nú heldur betur gott lið. Flottir strákar sem við erum að fara að etja kappi við þannig að við verðum bara að halda áfram,” sagði Arnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira